Sala á mjólk sem unnin er úr plöntuafurðum hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Hjá matvöruversluninni Krónunni jókst salan um 386 prósent á tímabilinu 2015 til 2018. Eftirspurn eftir jurtamjólk og þá sérstaklega haframjólk hefur verið það mikil að framleiðendur hafa ekki séð sér fært að anna henni.
Skortur á vörum hefur haft áhrif á sölu
Jurtamjólk er mjólk sem unnin er úr plöntuafurðum, þar á meðal er sojamjólk, möndlumjólk, hrísmjólk og kókosmjólk. Á árinu 2016 jókst salan á jurtamjólk hjá Krónunni um 95 prósent á milli ára. Árið eftir jókst salan um 92 prósent frá árinu á undan en árið 2018 jókst salan um 30 prósent. Sigurður Gunnar Markússon, framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Krónunni, bendir þó á í samtali við Kjarnann að skortur á vöruframboði hafi haft einhver áhrif á söluna í fyrra.
Haframjólkin frá sænska fyrirtækinu Oatly var til að mynda ófáanleg í verslunum hér á landi um hríð í fyrra. Eftirspurn eftir Oatly vörum hefur vaxið svo gífurlega um allan heim að til að svara þeirri eftirspurn var farið í að auka framleiðslugetuna með því að bæta við framleiðslulínum.
Eftirspurnin hér á landi eftir haframjólk hefur einnig aukist á síðustu árum. Í samtali við Morgunblaðið í desember sagði Jóhanna Ýr Hallgrímsdóttir, markaðsstjóri hjá Innnes sem hefur síðastliðin tvö ár flutt inn hafravörur frá Oatly, að þegar fyrirtækir voru að fá allar vörur frá fyrirtækinu þá voru nokkrir gámar að koma til landsins í viku.
Brynjar Ingólfsson, innkaupastjóri Hagkaups, sagði í samtali við Kjarnann að vegan-ostar, sósur, drykkir unnir úr plöntuafurðum og tilbúnir réttir sem flokkast sem vegan hafi stækkað umtalsvert í veltu og úrvali á undanförnum árum og þá sérstaklega drykkirnir.
Sala á kúamjólk dregist saman um 25 prósent
Mjólkurneysla landsmanna hefur farið minnkandi á síðustu árum og hefur heildarsala á drykkjarmjólk, þ.e. nýmjólk, léttmjólk, undanrennu og fjörmjólk, dregist saman um 7,9 milljónir lítra eða 25 prósent frá árinu 2010. Í fyrra nam heildarsalan á drykkjarmjólk 23,8 milljón lítrum og dróst saman um 2,8 prósent á milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi Sambands afurðastöðva í mjólkuriðnaði.
Alls dróst heildarsala mjólkurvara frá aðildarfélögum SAM saman um 2,2 prósent frá árinu 2017 til 2018 eða um 1290 tonn, samkvæmt ársreikningi samtakanna. Aðildarfélög SAM eru Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga sem eiga Mjólkursamsöluna og rekur KS mjólkursamlag KS á Sauðarárkróki. Samdráttur var í öllum vöruflokkum nema rjóma og dufti.
Alls hefur sala á rjóma, dufti, ostum og viðbiti aukist töluvert frá árinu 2010 en í heildina hefur sala á mjólkurvörum dregist saman um 4,1 prósent á síðustu 9 árum. Sala á rjóma hefur aukist hvað mest eða um 30,4 prósent frá árinu 2010 og jókst um 7,1 prósent í fyrra. Sala skyrtegunda dróst saman um 169 tonn í fyrra og sala á osti um 102 tonn í fyrra.