Um 29 prósent drengja og 16 prósent stúlkna gátu ekki lesið sér til gagns árið 2015. Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn frá Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, um læsi drengja og stúlkna við lok grunnskólagöngu.
Mikill munur er á 15 ára tímabili þar sem árið 2000 gátu 20 prósent drengja og átta prósent stúlkna ekki lesið sér til gagns.
Ráðherra hefur áður sagt lesskilning vera eitt helsta vandamálið sem takast þurfi á við, auk stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku og gagnsæi í upplýsingaöflun. Þau verkefni eru meðal þeirra sem eru til skoðunar við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030.
Í norrænni skýrslu um atvinnuþátttöku og menntun flóttamanna og innflytjenda á Norðurlöndum kemur fram að erfiðlega gangi að hjálpa börnum innflytjenda að aðlagast skólakerfum Norðurlandanna. Í skýrslunni er áhersla lögð á að styðja eigi betur við þau börn sem koma eldri inn í skólakerfið.
Áður hefur komið fram að Íslendingum sem lesa aldrei hefur fjölgað auk þess sem bóksala hefur dregist saman um 37 prósent á síðastliðnum árum.