Íslendingar verða mest varir við samkeppnisvandamál í farþegaþjónustu. Um 42 prósent svarenda nefna þjónustuna sem þann geira þar sem viðkomandi hefði upplifað vandamál sökum skorts á samkeppni. Þar á eftir nefna svarendur fjármálaþjónustu, eða um 33 prósent og þar á eftir matvörumarkað, 24 prósent.
Þetta kemur fram í niðurstöður MMR könnunar fyrir Samkeppniseftirlitið um viðhorf almennings til samkeppnisstefnu stjórnvalda og samkeppni í tilteknum atvinnugreinum. Alls voru 941 einstaklingar spurðir við framkvæmd könnunarinnar dagana 30. apríl til 3. maí 2019.
Hátt verð og lítill verðmunur
Íslendingar eru mest varir við samkeppnisvandamál í ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu og á matvörumarkaði. Þegar spurt var hver séu helstu vandamálin á viðkomandi mörkuðum þá var hátt verð og lítil verðmunur oftast nefnt. Alls sögðu 64 prósent að verðlag væri vandamálið í matvörumarkaði, farþega þjónustu og 54 prósent svöruðu að verðlagið væri vandamálið á lyfjamarkaði.
Könnunin Samkeppniseftirlits er byggð á könnun sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur látið gera þrisvar sinnum í öllum aðildarríkjum sambandsins. Eftirlitið segir að með því að framkvæma könnunina hér á landi gefst tækifæri til þess að bera niðurstöðurnar saman við niðurstöður innan ESB og einstakra aðildarríkja.
Íbúar ESB verða mest varir við samkeppnisvandamál í síma- og netþjónustu, eða 27 prósent svarenda, auk þess verða þeir varir við vandamál innan orkumarkaðsins og lyfjamarkaðsins. Í könnun ESB var hátt verð einnig oftast nefnt sem vandamál á þessum mörkuðum. Í tilfelli síma- og netþjónustu nefndu að meðaltali um 70 prósent svarenda í könnun ESB verð, það sama á við um aðra geira sem spurt var um.
Íslenskir neytendur meðvitaðir
Nær allir svarendur í könnuninni töldu virka samkeppni hafa góð áhrif á sig sem neytendur eða 97 prósent svarenda. Það er hærra en gengur og gerist í ríkjum Evrópusambandsins þar sem hlutfallið er að meðaltali 83 prósent í sambærilegri könnun.
Þá sögðu 8 af hverjum 10 Íslendingum hafa heyrt um ákvörðun tekna af samkeppnisyfirvöldum og nær allir þeirra nefna Samkeppniseftirlitið í því samhengi miðað við 5 af hverjum 10 innan ESB sem hafa heyrt um ákvörðun samkeppnisyfirvalda.
Samkvæmt tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu benda niðurstöður könnunarinnar til þess að íslenskir neytendur séu mjög meðvitaðir um mikilvægi virkrar samkeppni og samkeppniseftirlits.