Stjórnendur Facebook tilkynntu í morgun að fyrirtækið hefði í huga að koma á fót eigin rafmynt. Rafmyntin mun bera heitið Libra og mun vera notendum aðgengileg árið 2020.
Hægt verður að nota rafmyntina til að greiða fyrir hluti í daglegu lífi auk þess verður hægt að nota hana til þess að greiða fyrir hluti eða þjónustu á netinu.
Facebook staðhæfir að fjárhagsupplýsingar verði ekki notaðar til þess að sérsníða auglýsingar á samfélagsmiðlaforritinu.
Verði Libra að veruleika verður fjármálakerfi þess ekki stjórnað af seðlabanka. Hægt verður að borga fyrir ýmsa þjónustu með rafmyntinni, að því er kemur fram í frétt The New York Times. Slíkt geti bætt samkeppnisstöðu Facebook við önnur samfélagsmiðlaforrit sem bjóða upp á greiðsluþjónustu, líkt og hið kínverska WeChat.
Nái Libra vinsældum hjá 2,4 milljörðum notendum Facebook, gæti það haft veruleg áhrif á fjármálakerfi heimsins. Ýmsir bandarískir og breskir embættismenn hafa einmitt lýst yfir áhyggjum sínum af slíkri þróun samfélagsmiðlarisans.
Þá kemur fram í fréttinni að Libra muni vera stjórnað af the Libra Association, sem ekki verði rekið í gróðrarskyni. Libra muni notast við svokallaða Blockchain, eða skjalakeðju, líkt og rafmyntin Bitcoin gerir.