Bæta ætti réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum

Tillögur um bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisobeldis voru ræddar á ráðherranefndarfundi um jafnréttismál í gær.

druslugangan_20060730051_o.jpg
Auglýsing

Þolendur í kynferðisbrotamálum ættu að fá upplýsingar um framgang máls síns, hvort hinn ákærði hafi verið settur í gæsluvarðhald eða sleppt lausum og þeir ættu að fá að sitja í dómsal á meðan réttarhöldum stendur. Þetta eru meðal annarra tillagna sem lagðar fram voru í skýrslu um bætta réttarstöðu brotaþola kynferðisofbeldis.

Dómsmálaráðherra mun hefja endurskoðun á löggjöf og lagaframkvæmd í kjölfar skýrslunnar. Tillögurnar voru til umfjöllunar á ráðherranefndarfundi um jafnréttismál í gær, að því er fram kemur í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins.

Auglýsing
Skýrslan var unnin af Hildi Fjólu Antonsdóttur, réttarfélagsfræðingi, og fjallaði um heildstæðar úrbætur til að styrkja stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum. Staða brotaþola á Íslandi var borin saman við önnur Norðurlönd. 

Ísland eftirbátur annarra Norðurlanda

Niðurstöður skýrslunnar sýna fram á að Ísland og Danmörk séu eftirbátar annarra Norðurlanda. Brotaþolar í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi hafa sem dæmi ríkari rétt til upplýsinga, aðgangs að gögnum og þátttöku í meðferð máls fyrir dómi, samkvæmt tilkynningunni.

Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins eru settir fram lágmarksstaðlar sem ætlað er að tryggja að brotaþolar fái viðeigandi upplýsingar, stuðning og vernd í gegnum réttarferlið og gera þeim kleift að taka þátt í ferlinu.

Erlendar rannsóknir á upplifun brotaþola innan réttarkerfisins sýna fram á að margt annað en einungis niðurstaða málsins skipti þá máli, heldur einnig hvernig staðið sé að málinu og að þeir upplifi að málsmeðferðin sé réttlátt. Mikilvægt sé fyrir brotaþola að vera mætt af virðingu og skilningi af fagaðilum, ásamt því að mikilvægt sé fyrir brotaþola að fá upplýsingar um hvernig réttarkerfið virki og hvernig málinu miði innan þess. 

Lögreglu ber ekki skylda að upplýsa um framgang málsins

Á Íslandi er brotaþoli ekki aðili að sakamáli, að því er kemur fram í skýrslunni. Lögreglu er skylt að leiðbeina brotaþola um réttindi hans og tilkynna honum ef rannsókn máls er hætt eða það fellt niður, ásamt því að henni ber að rökstyðja ákvörðunina ef brotaþoli krefst þess. Þá kemur fram að lögregla skuli benda brotaþola á að hann geti borið ákvörðun hennar um að hætta rannsókn undir ríkissaksóknara.

Hins vegar ber lögreglu ekki skylda að upplýsa brotaþola um framgang málsins. Í skýrslunni segir að því geti „farið svo að brotaþoli komi einungis í eina eða tvær skýrslutökur og viti svo fátt um málið þar til lögregla hættir rannsókn málsins, vísar því frá, eða saksóknari annaðhvort fellir málið niður eða gefur út ákæru“.

Þar sem brotaþolar vita fátt um hvað fram hefur komið við rannsókn málsins vita þeir hugsanlega ekki að upplýsingar sem þeir búi yfir skipti máli. Því geti aðkoma þeirra að rannsókn mála aðstoðað við að upplýsa málið, segir í skýrslunni. Til að mynda gæti skipt máli að brotaþoli fái að bregðast við framburði sakbornings til að skýra mál sitt og/eða aðstoða við frekari öflun sönnunargagna.

Á Íslandi hefur brotaþoli ekki rétt á að hlýða á framburð sakbornings þegar hann gefur skýrslu fyrir dómi. Ástæðan gefin fyrir því er að þar með sé komið í veg fyrir að framburður sakbornings hafi áhrif á framburð vitna. Samkvæmt skýrslunni geta brotaþolar í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi þó gefið skýrslu fyrir dómi á undan sakborningi til þess að koma í veg fyrir að skýrsla sakbornings hafi áhrif á framburð brotaþola.

Óeðlilegt að brotaþolar séu ekki aðilar að málinu

Í skýrslunni er vísað til íslenskrar rannsóknar sem Hildur Fjóla Antonsdóttur gerði árið 2018 um hugmyndir og upplifun þolenda kynferðisbrota. Flestir viðmælendur rannsóknarinnar „töldu það óeðlilegt og fráleitt að brotaþolar væru ekki aðilar að sakamálinu – sakamáli sem viðmælendur töldu vera sitt mál.“

Auglýsing
Í skýrslunni segir enn frekar: „Það að vita lítið eða ekkert um framgang lögreglurannsóknar getur valdið brotaþolum miklum kvíða og óöryggi og jafnvel sett þá í hættu. Það getur skipt brotaþola sérlega miklu máli að fá að vita hvenær búið er að tilkynna sakborningi um að kæra liggi fyrir og hvenær sakborningur er kallaður í skýrslutöku. Sumir viðmælendur óttuðust viðbrögð kærða við kærunni þar sem þær töldu að hann gæti brugðist við með ógnandi hegðun eða hefndum.“

Miklu máli skipti fyrir brotaþola að vita hvort sakborningur sé settur í gæsluvarðhald auk þess að vita þegar hann sé látinn laus. Í málum þar sem hinn ákærði hlýtur dóm sé mikilvægt fyrir brotaþola að vita „hvenær sá dæmdi hefur afplánun dóms, ef og þegar hann fær leyfi úr fangelsi, er færður á áfangaheimili eða hefur afplánað dóm.“

Niðurfelling máls getur haft alvarlegar afleiðingar

Niðurfelling mála getur haft alvarleg áhrif á brotaþola. Viðmælendur rannsóknarinnar fyrrnefndu lýstu áhyggjum sínum af því að þegar mál eru felld niður þá líti samfélagið svo á að brotið hafi ekki átt sér stað og að brotaþoli hafi verið að ljúga til um ofbeldið. Þetta getur valdið þeim álitshnekki og haft áhrif á félagslega stöðu og heilsufar. 

Sumir viðmælendur töluðu einnig um að þeir hefðu í kjölfarið misst trúna á samfélagið og að niðurfellingin hefði haft alvarlegri áhrif á þær og heimsmynd þeirra en ofbeldið sjálft, að því er kemur fram í skýrslunni.

Brotaþolar fá ekki að sitja inni í dómsal

Í skýrslunni kemur fram að þar sem þinghöld í kynferðisbrotamálum séu oft lokuð og brotaþolar hafi stöðu sem vitni, hafi þeir ekki rétt að sitja inni í dómsal til þess að fylgjast með réttarhöldunum.

Brotaþolar hafa mismunandi réttarstöðu á Norðurlöndunum. Brotaþolar í Finnlandi og Svíþjóð eiga rétt á að gerast aðilar að sakamálinu, auk þess sem þeir hafa rétt á að hefja einkarefsimál ef saksóknari fellir niður málið. Á Íslandi, í Danmörku og Noregi hafa brotaþolar hins vegar réttarstöðu vitnis og hafa þar af leiðir takmarkaðan rétt á að hefja einkarefsimál.

Mynd fengin úr skýrslu um réttarstöðu brotaþola á Íslandi.Réttarstaða brotaþola á Norðurlöndum

Í Svíþjóð og Finnlandi geta brotaþolar lagt fram sín eigin ákæruskjöl og sönnunargögn, spurt ákærða og vitni spurninga, ásamt því að áfrýja málinu. Fram kemur í skýrslunni að í Finnlandi og Svíþjóð er þátttaka brotaþolanna í réttarhöldunum litin jákvæðum augum vegna þess að þeir þekki oft betur til málsatriða en saksóknarar.

Sjaldgæft að þolendur sæki rétt sinn í einkamáli

Ætla má að brotaþolar á Íslandi séu ekki nægilega vel upplýstir um að þeir geti sótt rétt sinn í einkamáli, að því er kemur fram í skýrslunni. Enn fremur sé það ekki öllum raunhæfur möguleiki því um sé að ræða töluverða fjárhagslega áhættu.

Því er lagt til að gjafsóknarreglur séu útfærðar með þeim hætti að brotaþolar geti sótt um og fengið gjafsókn til að sækja slík mál.

Tillögur til úrbóta

Lagt er til að allir þolendur alvarlegra brota njóti bættrar réttarstöðu, ekki einungis þolendur kynferðisbrota. Er varðar aukinn rétt til upplýsinga og þátttöku á rannsóknarstigi er meðal annars lagt til í skýrslunni að brotaþolar eigi rétt á að ráðfæra sig við réttargæslumann á kostnað ríkisins áður en tekin er ákvörðun um að kæra málið til lögreglu, að réttur þeirra sé sá sami og aðgangur til kærða nema lögregla telji að það geti skaðað rannsókn málsins.

Einnig er lagt til að lögreglu sé skylt að upplýsa brotaþola um gang málsins, til dæmis veita upplýsingar ef hinn kærði er settur í gæsluvarðhald eða látinn laus úr gæsluvarðhaldi.

Auglýsing
Lagt er til að réttur brotaþola til upplýsinga sé aukinn, til dæmis að brotaþola sé boðið að vera tilkynnt um niðurfellingu máls og að brotaþoli geti borið vitni fyrir dómi á undan ákærða og geti setið í réttarsal í gegnum réttarhöldin. Einnig eigi brotaþoli eða réttargæslumaður hans rétt á að leggja fram viðbótarsönnunargögn, brotaþoli geti ávarpa dóminn áður en réttarhöldum lýkur og að hann hafi rétt til að áfrýja dómi.

Einnig er lagt til að fangelsisyfirvöldum beri skylda til að upplýsa brotaþola, ef hann svo kýs, þegar hinn dæmdi hefur afplánun refsingar, fær leyfi úr fangelsi eða fluttur í opið fangelsi.

Í skýrslunni er einnig lagt til að kanna skuli hvort æskilegt væri að gera „dómurum í sakamáli kleift að taka sjálfstæða afstöðu til einkaréttarkröfunnar og dæma í henni á grundvelli lægri sönnunarkröfu þó svo að ákærði hafi verið sýknaður.“ Ásamt því sem brotaþolar hafi rétt á gjafsókn.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sjókvíaeldi hefur aukist hratt á síðustu árum
Sjókvíaeldi hefur 13-faldast á sex árum
Umfang laxeldis hefur margfaldast á síðustu árum og útlit er fyrir að það muni vaxa enn frekar í náinni framtíð. Gangi spár eftir mun sjókvíaeldi á laxi árið 2023 verða tæplega helmingi meira en það var samanlagt á árunum 2010-2018.
Kjarninn 7. maí 2021
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent