Fjórar konur hafa efnt til söfnunar á Karolinafund fyrir Málfrelsissjóð sem mun geta staðið undir málsvarnarlaunum og skaðabótum sem konur gætu þurft að greiða vegna ummæla um kynbundið ofbeldi.
Nú þegar hefur um þriðjungi verið safnað af heildarupphæð sjóðsins, og eru það þær Helga Þórey Jónsdóttir, Anna Lotta Michaelsdóttir, Elísabet Ýr Atladóttir og Sóley Tómasdóttir sem standa fyrir söfnuninni. Kjarninn náði tali af Önnu Lottu Michaelsdóttur og spurði hana út í stofnun sjóðsins.
Anna Lotta segir að dómurinn gegn Oddnýju Aradóttur og Hildi Lilliendahl Viggósdóttur, sem dæmdar voru til að greiða miskabætur vegna ummæla sinna í kjölfar hins svokallaða Hlíðamáls, sé fordæmisgefandi. Anna Lotta segir að stofnendur sjóðsins séu að berjast fyrir því að fá réttarkerfinu breytt.
„Það er ekkert verið að dæma harðar eða oftar í kynferðisbrotamálum, en þá virðist með þessum dómi vera komið tiltölulega gott vopn gegn konum sem tjá sig um kynferðisofbeldi, að það sé hægt að kæra þær fyrir meiðyrði,“ segir Anna Lotta. Þar með sé verið að skerða tjáningarfrelsi kvenna sem tjá sig um kynferðisofbeldi.
Viðbrögðin koma ekki á óvart
Söfnunin hófst í dag og nú þegar er búið að safna 39 prósentum af heildarupphæð sjóðsins á Karolinafund og eru 20 þúsund Evrur takmarkið. Anna Lotta segir viðbrögðin vera gjörsamlega frábær, þau komi hins vegar ekki á óvart.
„Þetta kemur mér í rauninni ekki það mikið á óvart. Tjáningarfrelsi hlýtur að vera eitt af mikilvægustu hlutunum sem við eigum ef við búum í lýðræðissamfélagi. Þessi dómur gefur annað til kynna og fólk er mjög reitt.“
Anna Lotta segir að stofnendur sjóðsins eigi eftir að útbúa skýrt ferli um ráðstöfun sjóðsins. Hins vegar sé ljóst að ráðstafað verði úr sjóðnum til fólks sem tali fyrir réttindum jaðarhópa.
Hún telur viðbúið að fyrsta úthlutunin fari til Hildar og Oddnýjar. „Þetta er ekki komið á hreint en ég fer ekki í fjörur með það að það sé þessi dómur Hildar og Oddnýjar sem að það færi fyrst í,“ segir Anna Lotta.
Vona að fólk treysti okkur
Anna Lotta segir að fjórmenningarnir sem koma að stofnun sjóðsins muni ákveða hvaða einstaklingar fái úthlutað úr sjóðnum. „Ég vona að fólk treysti okkur að vega það og meta,“ segir hún.
Áhyggjur af réttarríkinu
Anna Lotta segist miklar áhyggjur hafa af réttarríkinu á Íslandi. „Ef þetta er réttarríkið sem við búum í þá munu fleiri vera dæmdar,“ sagði hún. Hún segist einnig setja spurningu við dóminn.
„Það eina sem við erum að gera er að gagnrýna niðurstöðu sem er að koma frá valdhöfum. það er augljóst mál að við erum ekki að taka sögur kvenna nógu alvarlega, miðað við hversu oft er dæmt í málum og hvaða viðbrögð konur fá þegar þær tjá sig,“ sagði Anna Lotta.
Anna Lotta segir takmarkið vera að gagnrýna réttarkerfið í heild sinni. „Okkar lokatakmark er að fólk geti tekið málefnalegri gagnrýni, ekki einstaka fólk í þessu kerfi, heldur kerfið í heild sinni,“ segir hún.