Launakostnaður var 61 prósent af heildargjöldum Íslandspóst árið 2018. Í fyrra voru 743 stöðugildi hjá Íslandspósti og var starfsmannavelta um 37 prósent. Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu um starfsemi Íslandspóst en þar kemur fram að félagið þurfi að tryggja að fjöldi og samsetning mannauðs hjá félaginu haldist í hendur við breytingar á starfseminni. Fjöldi stöðugilda hjá Íslandspóst hefur almennt ekki þróast í takt við síminnkandi umsvif í kjarnastarfsemi félagsins ef litið er til síðustu tíu ára, samkvæmt skýrslunni.
Laun og launatengd gjöld hækkað veruleg á síðustu árum
Fjárhagsvandi Íslandspóst á árinu 2018 leiddi til þess að félagið stefndi í greiðsluvanda þegar viðskiptabanki þess lokaði fyrir frekari lánveitingar. Í kjölfarið fékk ríkissjóður heimild frá Alþingi í lok síðasta árs til að veita fyrirtækinu einn og hálfan milljarð í neyðarlán. Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti í kjölfarið í janúar á þessu ári beiðni til Ríkisendurskoðanda um að unnin yrði stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts. Sú skýrsla Ríkisendurskoðunar var birt í dag.
Í skýrslunni kemur fram að talsverðar sviptingar hafi verið í rekstri Íslandspósts undanfarin ár. Árin 2016 og 2017 var ágætur hagnaður af rekstri félagsins en samkvæmt skýrslunni komu áhrif af minnkandi bréfamagni ekki fram í tekjum félagsins fyrr en árið 2018. Þá hafi laun og launatengd gjöld hækkað verulega á síðustu árum á sama tíma og fjárfestingar hafa aukist. Samkvæmt skýrslunni var launakostnaður 61 prósent af heildargjöldum fyrirtækisins í fyrra.
Hjá Íslandspósti störfuðu að meðaltali 962 starfsmenn í 743 stöðugildum á árinu 2018. Á árunum 2009 til 2014 fækkaði stöðugildum jafnt og þétt eða um 15 prósent og fóru þau úr 848 í 721. Frá árinu 2015 fjölgaði stöðugildum hinsvegar aftur og voru orðin 823 á árinu 2017, 14 prósent aukning, en fækkaði í 743 á árinu 2018.
Blaðberum hefur fækkað um þriðjung hjá fyrirtækinu en stöðugildum í pósthúsum og við flutninga og útkeyrslu hefur hins vegar fjölgað töluvert á tímabilinu. Sama á við um stöðugildi í póstmiðstöð þótt í minna mæli sé.
Í skýrslunni segir að félagið þurfi að tryggja að fjöldi og samsetning mannauðs hjá félaginu haldist í hendur við breytingar á starfseminni. „Fjöldi stöðugilda hjá Íslandspósti ohf. hefur almennt ekki þróast í takt við síminnkandi umsvif í kjarnastarfsemi félagsins ef litið er til síðustu 10 ára,“ segir í skýrslunni.
Laun forstjóra Íslandspósts hækkuðu um 43 prósent á innan við ári
Kjarninn greindi frá því í mars síðastliðnum að Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri ríkisfyrirtækisins Íslandspósts, hafi hækkaði tvívegis í launum á árinu 2018. Fyrst hækkuðu laun hans í 1.992 þúsund krónur á mánuði fyrsta janúar 2018 og svo aftur um þrjú prósent 1. maí sama ár. Eftir það voru laun hans 2.052 þúsund krónur á mánuði.
Laun Ingimundar hækkuðu um tæp 43 prósent frá miðju ári 2017, þegar ákvörðun um laun hans var færð frá kjararáði til stjórnar Íslandspósts. Þetta kom fram í svarbréfi formanns stjórnar Íslandspósts við fyrirspurn Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsáðherra, um upplýsingar um hvernig stjórn Íslandspósts hafi brugðist við tilmælum fyrirrennara Bjarna í starfi um að sýna hófsemi við ákvörðun launa og starfskjara forstjóra.
Fréttablaðið greindi jafnframt frá því í febrúar síðastliðnum að sé litið aftur til ársins 2014 þá hafa laun stjórnarmanna Íslandspóst hækkað ár hvert. Hækkunin hefur verið á bilinu ellefu til tólf prósent ár hvert. Auk þess segir í umfjölluninni að hafi tillaga stjórnar um hækkun launa sinna verið samþykkt á aðalfundi Íslandspóst í fyrra þá hafa laun stjórnarmanna hækkað um 65 prósent frá árinu 2014.
Enn fremur greiddi Íslandspóstur 29,5 milljónir króna fyrir fimm jeppa og einn fólksbíl árið 2015, sem forstjóri og framkvæmdastjórar fyrirtækisins hafa til umráða samkvæmt ráðningarsamningum. Í svari Íslandspóst við fyrirspurn DV segir að fyrirtækið hafi á að skipa öflugt stjórnendateymi og það eigi við um stjórnendur sem og aðra starfsmenn fyrirtækisins, að það verði að vera samkeppnishæft í launum til að eiga kost á að laða til síns hæfa starfsmenn.
Íslandspóstur ætti að draga sig úr samkeppni við einkaaðila
Félag atvinnurekenda sendi frá sér fréttatilkynningu um skýrslu Ríkisendurskoðunar í dag. Í tilkynningu segir að í skýrslunni komi fram að fyrirkomulag Íslandspósts, að einkaréttur á bréfum undir 50 grömmum standi undir öllum sameiginlegum og föstum kostnaði sem tengist honum en samkeppnisrekstur beri enga hlutdeild í sameiginlegum föstum kostnaði jafnvel þótt hann nýti sér sömu framleiðsluþættina, skekki augljóslega samkeppnisstöðu keppinauta Íslandspósts.
„Ekki verður annað séð en að með þessu staðfesti Ríkisendurskoðun í raun alvarleg samkeppnisbrot í rekstri Íslandspósts. FA telur mikilvægt að breytingar verði gerðar á rekstri Íslandspósts til að rétta af þessa stöðu,“ segir Ólafur Stepehensen, framkvæmdastjóri FA.
Jafnframt segir í tilkynningunni að félagið fagni þeirri tillögu Ríkisendurskoðunar að stjórnvöld móti eigendastefnu fyrir Íslandspóst en í skýrslunni segir að í þeirri vinnu þurfi að taka til athugunar hvort fela eigi öðrum en félaginu að sinna einum eða fleiri starfsþáttum þess. „FA leggur áherslu á að stjórnvöld setji skýr ákvæði um það í eigendastefnu Íslandspósts að svo lengi sem fyrirtækið sé í ríkiseigu dragi það sig út úr samkeppni við einkaaðila á margvíslegum mörkuðum,“ segir í tilkynningunni
Þá segir í tilkynningunni að Ríkisendurskoðun telji að of margir starfi hjá Íslandspóst, miðað við þann samdrátt sem hafi orðið í kjarnastarfsemi félagsins undanfarna áratugi. „Stór hluti starfsmanna Íslandspósts er í vinnu við verkefni sem ríkið á ekki að vera að sinna,“ segir Ólafur