Viðamiklar skipulagsbreytingar eru framundan hjá Íslandspósti, samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Fækkað hefur verið í framkvæmdastjórn félagsins og framkvæmdastjórum fækkað úr fimm í þrjá. Samhliða því hafa ýmsar skipulagsbreytingar verið gerðar innan fyrirtækisins en samkvæmt forstjóra fyrirtækisins eru breytingarnar gerðar til draga úr rekstrarkostnaði fyrirtækisins og auka hagræðingu.
Mikil hagræðing og kostnaðaraðhald framundan
Framkvæmdastjórar Íslandspósts voru fimm en verða í kjölfar breytinganna þrír á sviðunum þjónustu og markaður, fjármál og dreifing. Í tilkynningunni segir að Helga Sigríður Böðvarsdóttir muni áfram leiða svið fjármála, en nú þegar hafi verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri yfir sviði þjónustu og markaðar, sem áður hét markaðs- og sölusvið, og hefur sá aðili störf í sumar. Hörður Jónsson mun leiða dreifingarsvið, sem er sameinuð pósthúsa og framkvæmdasvið en hann hefur hingað til stýrt pósthúsasviði. Samhliða þessu verður Sigríður Indriðadóttir nú titluð mannauðsstjóri en var áður framkvæmdastjóri starfsmannasviðs.
Í tilkynningunni segir að samhliða þessum breytingum verður stafræn þjónusta sett sérstaklega í forgang hjá póstinum. Auk þess verða flokkar innan fyrirtækisins að sérstökum einingarsviðum sem starfa þvert á rekstrarsviðin undir nýju þróunarsviði sem Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, leiðir. Birgir var ráðinn forstjóri Íslandspósts í lok maí en Ingimundur Sigurpálsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, sagði starfi sínu lausu sem forstjóri þann 15. mars síðastliðinn eftir fjórtán ára starf.
Þá mun skrifstofa Íslandspósts flytja frá Stórhöfða yfir í skrifstofurými í Höfðabakka. Í tilkynningunni segir að tilgangur þessara breytinga á skipuriti Íslandspóst er að ná fram hagræðingu í rekstrinum, búa til nýjan og öflugan hóp lykilstjórnenda og auka og hraða upplýsingaflæði innan fyrirtækisins. Birgir segir að þessar breytingar séu einungis fyrstu skrefin og að framundan sé mikil hagræðing og kostnaðaraðhald hjá fyrirtækinu.
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst birt í dag
Í september 2018 leitaði Íslandspóstur á náðir ríkisins og fékk 500 milljónir króna að láni til að bregðast við lausafjárskorti eftir að viðskiptabanki þess, Landsbanki Íslands, hafði lokað á frekari lánveitingar. Nokkrum mánuðum síðar, í desember, samþykkti Alþingi að lána fyrirtækinu allt að milljarð til viðbótar.
Í umsögn Ríkisendurskoðunar, um auka fjárveitingu ríkisins til Íslandspósts, sagði að Ríkisendurskoðun teldi að það væri óheppilegt að ekki liggi nákvæmlega fyrir hvernig fyrirhugað sé að taka á rekstrarvanda Íslandspósts þannig að tilskilinn árangur náist áður en tekin er ákvörðun um framlög úr ríkissjóði til félagsins. Þá væri orsök fjárhagsvandans alls ógreind, ekki lægi fyrir hvort hann stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar.
Fjárlaganefnd Alþingis samþykkti því í janúar á þessu ári beiðni til Ríkisendurskoðanda um að unnin yrði stjórnsýsluúttekt á starfsemi Íslandspósts. Sú skýrsla Ríkisendurskoðunar verður opinberuð í dag að loknum sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.