Aukning á póstsendingum sem rekja má til Kína var 202 prósent á árunum 2014 til 2018. Inn- og útflutningur á vörum til Kína hefur stóraukist á tímabilinu vegna undirritunar fríverslunarsamnings ríkjanna. Enn fremur hefur Íslandspóstur lent í töluverðum vandræðum með auknar póstsendingar vegna netverslunar, þá sérstaklega frá Kína.
Fríverslunarsamningur Kína og Íslands var undirritaður árið 2013 og tók gildi árið 2014. 21 prósent aukning varð á milli áranna 2014 til 2015 og 41 prósent þar á eftir. Mesta aukning á milli ára var frá árinu 2016 til 2017, það er 51 prósent aukning, en lækkaði svo niður í 17 prósent aukningu milli ára 2017 til 2018. Aukning á öllu tímabilinu er 202 prósent.
Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Kjarnans. Pósturinn getur þó ekki gefið upp heildarfjölda sendinga vegna samkeppnissjónarmiða, að því er kemur fram í svarinu.
Auglýsing
Inn- og útflutningur Íslands til Kína hefur aukist til muna
Bæði hefur innflutningur og útflutningur á vörum til og frá Kína aukist frá undirritun fríverslunarsamningsins. Virði útflutnings á vörum til Kína fór úr 3.413 milljónum árið 2010 í 4.803 milljónir árið 2014, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.
Árið 2018 stóð virðið í 15.642 milljónum. Innflutningur fór úr 28731 milljónum árið 2010 í 46.390 milljónir árið 2014. Árið 2018 stóð innflutningur í 73.606 milljónum króna.
Netverslun Íslendinga hefur aukist gífurlega
Aukning á netverslun Íslendinga á vörum frá Kína hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Í viðtali við tímaritið Umræðan sagði Vésteinn Viðarsson, fyrrum vörustjóri pakkasendinga hjá Íslandspósti, að vatnaskil hefðu orðið árið 2013 þegar Íslendingar uppgötvuðu kínversku netverslunina AliExpress og í framhaldinu aðrar sambærilegar vefverslanir.
Sendingar til landsins frá útlöndum sjöfölduðust frá 2013 til 2017 og stóð virðið árið 2017 í 4,3 milljörðum króna samkvæmt tollskráningu frá Embætti tollstjóra og tollafgreiðslu Íslandspósts. Kaup frá innlendum netverslunum voru 8,8 milljarðar á sama tíma.
Íslandspóstur tapar á netverslun
Íslandspósti er skylt samkvæmt alþjóðasamningum að greiða 70 til 80 prósent af kostnaði póstsendinga frá þróunarlöndum, þar á meðal Kína. Ingimundur Sigurpálsson, fyrrum forstjóri Íslandspósts, sagði í viðtali við Morgunblaðið í september síðastliðnum að rekja mætti stóran hluta af tapi Íslandspóst til þessara niðurgreiðslna en kostnaðurinn hleypur á hundruðum milljóna.
„Mikil aukning hefur verið í netverslun frá útlöndum á undanförnum árum og þá sérstaklega frá Kína. Vegna óhagstæðra alþjóðasamninga þar sem Kína er flokkað sem þróunarríki fær Íslandspóstur mjög lágt gjald greitt fyrir þessar sendingar og standa þær greiðslur einungis undir litlum hluta þess kostnaðar sem fellur til við að meðhöndla þær. Mikið tap af þessum erlendu sendingum, sem Íslandi ber að sinna samkvæmt alþjóðasamningum, er stór hluti vandans við fjármögnun alþjónustunnar,“ sagði Ingimundur.
Frá og með 3. júní síðastliðnum var Íslandspósti leyfilegt að rukka viðbótargjöld af pökkum sem koma erlendis frá. Sendingargjaldið er nú 400 krónur fyrir sendingar frá Evrópu en 600 krónur fyrir sendingar frá löndum utan Evrópu, segir í frétt Íslandspósts.
Ástæðan fyrir hækkuninni er „sú að verð samkvæmt alþjóðlegum samningum um póstsendingar hefur verið allt of lágt til að standa straum af kostnaði við dreifingu á Íslandi og hefur Íslandspóstur þurft að fjármagna þann mismun. Á síðasta ári nam tapið af þessum hluta starfsemi fyrirtækisins alls um 920 milljónum kr. og hefur verið áframhaldandi tap á þessu ári. Íslandspóstur hefur ekki svigrúm til þess að standa undir þessum kostnaði og því hafa stjórnvöld staðið fyrir breytingu á lögum um póstþjónustu, sem heimila innheimtu sendingargjalds til þess að fjármagna mismuninn,“ að því er segir í frétt Íslandspósts.
Þó er ljóst að tapið er ekki eingöngu vegna sendinga frá Kína, heldur er það einnig vegna sendinga frá Vesturlöndum, samkvæmt frétt RÚV.