Karlar hjóla oftar en konur og upplifa meira öryggi þegar þeir hjóla en konur, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar um nýja rannsókn á öryggisupplifun hjólreiðafólks í borginni. Sigrún Birna Sigurðardóttir, Cand. Psych & PhD í samgöngu- og umhverfissálfræði, vann rannsóknina.
Í rannsókninni segir að 70 prósent þátttakenda hafi aðgengi að hjóli, samgöngusamningur sé marktækur hvati fyrir hjólreiðum og að 15,7 prósent þátttakenda telji að veður hafi frekar eða mjög lítil áhrif á ákvörðun um að hjóla.
Hjólið er aðalferðamáti einungis átta prósent þátttakenda þó 70 prósent hafi aðgengi að hjóli. 48 prósent hjólreiðamanna segja veður hafa frekar eða mjög mikil áhrif á hjólreiðar en 15,7 prósent sögðu það hafa frekar eða mjög lítil áhrif. 91 prósent hjólreiðamanna nota hjálm og 47 prósent nota sýndarleikafatnað.
Á myndinni fyrir ofan sést hlutfall aldurs þeirra sem hjóla í sumarfærð. Af þeim sem hjóla aldrei voru allir á aldursbilinu 18 til 29 ára. Af þeim sem hjóla einu sinni til þrisvar sinnum í mánuði var helmingur á aldrinum 50 til 59 ára og hinn helmingurinn 60 til 69 ára. Af þeim sem hjóla þrisvar til fjórum sinnum í viku og þeim sem hjóla fimm til sjö sinnum í viku eru flestir á aldrinum 40 til 59 ára.
54 prósent hjólreiðamanna telja sig frekar eða mjög örugga en 12 prósent frekar eða mjög óörugga. Óöryggi var ástæða 18 prósent þeirra svarenda að hafa valið sér anna ferðamáta. Óöryggi hefur enn fremur oftar áhrif á val á ferðamáta kvenna.
Í ljós kemur að mun fleiri karlar hjóla fimm til sjö skipti í viku, það er um 51 prósent karla á móti 28,6 prósentum kvenna. Konur hjóla hins vegar oftar ef það er eitt til þrjú skipti í mánuði, eitt til tvö skipti í viku eða þrjú til fjögur skipti í viku. 10,7 prósent kvenna hjóla hins vegar sjaldan eða aldrei á móti 5,7 prósentum karla.