Forsvarskonur Málfrelsissjóðsins senda Aldísi Schram baráttukveðjur og segjast ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að standa með henni eins og öðrum konum sem sæti fjárhagslegum hótunum af hálfu ofbeldismanna. Frá þessu greinir sjóðurinn á Facebook-síðu sinni í dag.
Fjórar konur hafa efnt til söfnunar á Karolinafund fyrir Málfrelsissjóð sem mun geta staðið undir málsvarnarlaunum og skaðabótum sem konur gætu þurft að greiða vegna ummæla um kynbundið ofbeldi.
Stundin greindi frá því í morgun að Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, hefði stefnt Aldísi Schram dóttur sinni fyrir meiðyrði. Jafnframt hefði hann stefnt Sigmari Guðmundssyni dagskrárgerðarmanni og RÚV.
„Hafi einhverntímann einhver efast um mikilvægi Málfrelsissjóðsins, þá ætti viðkomandi að lesa þessa frétt. Þegar hafa 23 konur sagt frá áreitni og ofbeldi af hálfu þessa manns og hann hefur ítrekað verið kærður. Kerfið hefur þó staðið með honum gegnum tíðina og nú beitir hann því gegn henni enn eina ferðina,“ segir í færslu Málfrelsissjóðsins á Facebook.
Hafi einhverntímann einhver efast um mikilvægi Málfrelsissjóðsins, þá ætti viðkomandi að lesa þessa frétt. Þegar hafa 23...
Posted by Málfrelsissjóður on Friday, June 28, 2019