Birta lífeyrissjóður mun lækka bæði óverðtryggða og verðtryggða, breytilega vexti sjóðfélagalána sinna þann 1. júlí næstkomandi, sem er á morgun. Óverðtryggðir vextir lækka úr 5,1 prósent í 4,85 prósent en verðtryggðir breytilegir vextir lækka úr 2,31 prósent í 1,97 prósent.
Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóðurinn á Íslandi ef miðað er við hreina eign til greiðslu lífeyris.
Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að breytilegir, verðtryggðir vextir taki breytingum á þriggja mánaða fresti, það er að segja á fyrsta degi mánaðar í upphafi ársfjórðungs. Stjórn lífeyrissjóðsins meti viðmið til vaxtaákvarðana á hverjum tíma. Ákveðið áhyggjuefni sé hve lítil viðskipti séu með skuldabréf Íbúðalánasjóðs sem jafnan hafi verið vaxtagrunnur og viðmið.
Íris Anna Skúladóttir, lánastjóri Birtu, segir að vextir sjóðsins hafi lækkað undanfarin ár og lækki enn. Það skýri vafalaust þá staðreynd að sjóðfélagalánum í vanskilum hafi fækkað verulega og vanskil séu raunar í sögulegu lágmarki um þessar mundir.
Í frétt sjóðsins kemur fram að nýjum sjóðfélagalánum Birtu hafi fjölgað verulega undanfarin ár og megi skýra það með því að vextir hafa lækkað og lántökugjald lækkað sömuleiðis. Lántökugjaldið sé reyndar orðið föst krónutala, óháð lánsfjárhæð.
Seðlabankinn lækkar vexti
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að lækka meginvexti bankans um 0,25 prósentustig í síðastliðinni viku. Það þýðir að vextir hans eru nú 3,75 prósent og hafa lækkað um 0,75 prósentustig í síðustu tveimur ákvörðunum hennar.
Þar með hefur einni af forsendum Lífskjarasamninganna, um að meginvextir Seðlabanka Íslands myndu lækka um 0,75 prósentustig fyrir september 2020, verið náð rúmu ári fyrir þá dagsetningu, að minnsta kosti tímabundið.
Vaxtalækkun Seðlabankans hefur ekki komið mikið á óvart. Síðast þegar vaxtaákvörðun átti sér stað voru vextir lækkaðir um 0,5 prósentustig og allir greiningaraðilar voru sammála um að áframhaldandi vaxtalækkun væri í kortunum.
Ólga í Lífeyrissjóði verzlunarmanna
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna þann 20. júní síðastliðinn var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða.
Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem ganga í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafði sagt að breytingar á vöxtum breytilegra verðtryggða lána sjóðsins, sem eiga að hækka um tæp tíu prósent 1. ágúst næstkomandi, hefðu verið vegna þess að vextirnir hefðu verið „orðnir óeðlilegir“.
Vextir lífeyrissjóðsins eru í dag 2,06 prósent og munu þeir hækka upp í 2,26 prósent í ágúst næstkomandi.