Íslandspóstur er að undirbúa söluferli á prentþjónustufyrirtækinu Samskiptum. Salan er hluti af endurskipulagningu félagsins sem greint var frá á dögunum. Forstjóri Íslandspóstur segir að fyrirtæki líti nú svo á að prentsmiðjurekstur sé ekki hluti af kjarnastarfsemi Íslandspóst og því hafi verið ákveðið að setja fyrirtækið á sölu.
Prentsmiðjurekstur ekki hluti af kjarnastarfsemi
Íslandspóstur keypti Samskipti ehf. árið 2006. Kaupverð var ekki gefið upp en niðurfært kaupverð í ársreikningum 2009 til 2011 nam 131 milljón. Í tilkynningu frá Íslandspósti segir að fyrirtækið muni fá óháða matsaðila til að verðmeta félagið og taka saman sölugögn en að allt kapp sé lagt á að ferlið taki sem skemmstan tíma og mun auglýsing um söluferlið birtast á næstu vikum.
Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, segir að Samskipti hafi verið keypt þegar aðstæður voru aðrar og Íslandspóstur hafi verið að leita eftir viðskiptatækifærum til að styrkja sig til framtíðar. „Við lítum einfaldlega svo á núna að prentsmiðjurekstur sé ekki hluti af kjarnastarfsemi Íslandspósts og höfum því ákveðið að setja fyrirtækið á sölu.“
Dóttur- og hlutdeildarfélög ekki skilað þeirri samlegð og arði sem að var stefnt
Íslandspóstur tilkynnti á dögunum að fyrirtækið væri í allsherjar endurskipulagningu og að mikið hagræðingarferli væri farið af stað innan félagsins. Þar á meðal var fækkað í framkvæmdastjórn félagsins. Sú ákvörðun að selja Samskipti er liður í þeirri aðgerð.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandspóst til Alþingis sem birt var í júní kom fram að fjárfestingar Íslandspóst í dóttur- og hlutdeildarfélögum hafi ekki skilað félaginu þeirri samlegð og arði sem að var stefnt.
Í desember árið 2018 var dótturfélag Íslandspósts, ePóstur, afskráð úr fyrirtækjaskrá og innlimað inn í Íslandspóst. Í janúar á þessu ári var síðan greint frá því að Íslandspóstur hlaut ekki samþykki Samkeppniseftirlitsins áður en ePóstur var sameinað móðurfélaginu en í sátt sem fyrirtækið gerði við Samkeppniseftirlitið í febrúar 2017 segir að ekki megi sameina dótturfélög móðurfélaginu nema samþykki eftirlitsins liggi fyrir.
Félag atvinnurekenda hefur verið ötult við að gagnrýni að Íslandspóstur hafi farið inn á markaði óskylda póstþjónustu líkt og sælgætissölu og prentsmiðjurekstur. Félag atvinnurekenda hefur einnig nefnt flutningsmiðlun sem óskyldan rekstur. Félagið telur það vera brot samkeppnislögum þar sem samkeppnistarfsemin sé niðurgreidd með tekjum af einkaréttarrekstri.
„Það er mjög áleitin spurning hvort eigendastefnu ríkisins vegna opinberra hlutafélaga sé ekki ábótavant. Þar segir að stjórnir slíkra félaga skuli leitast við að efla samkeppni en stjórn Íslandspósts virðist misskilja það sem svo að fyrirtækið skuli fara í samkeppni við allt sem hreyfist,“ sagði Ólafur í samtali við Fréttablaðið í nóvember í fyrra.