Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, er einn umsækjenda um stöðu Þjóðleikhússtjóra. Hann tilkynnti starfsfólki Ríkisútvarpsins þetta í morgun en umsóknarfrestur um starfið rennur út í dag. Frá þessu er greint á vef Stundarinnar.
Ari Matthíasson var skipaður þjóðleikhússtjóri til fimm ára frá 1. janúar 2015 en starfið var auglýst laust til umsóknar í maí síðastliðnum. Ari hefur ákveðið að gefa áfram kost á sér til verksins.
Samkvæmt lögum skipar mennta- og menningarmálaráðherra í starfið til fimm ára í senn að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Þjóðleikhússtjóri stjórnar og ber ábyrgð á starfsemi og rekstri Þjóðleikhússins. Hann markar listræna stefnu leikhússins í samráði við þjóðleikhúsráð, stýrir stofnuninni samkvæmt samþykktri starfs- og fjárhagsáætlun og ber ábyrgð á rekstri þess, bæði listrænum og fjárhagslegum.
Í tölvupósti til samstarfsfólks hans á RÚV skrifar Magnús Geir að þrátt fyrir að vera ánægður í starfi og að allt gangi vel á RÚV þá eigi leikhúsið samt alltaf rosalega stóran sess í hjarta hans. „Eins og þið vitið sjálfsagt, þá hafði ég verið í leikhúsinu allt mitt líf, þegar mér bauðst að taka við stjórn RÚV fyrir rúmum fimm árum. Ég er ótrúlega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð í sameiningu á síðustu misserum og ég er mjög ánægður í starfi mínu hér,“ segir Magnús Geir.
Hann segist jafnframt vona að samstarfsfólk hans skilji og virði ákvörðunina en ítrekar að ekkert sé í hendi enn.
Magnús Geir er leikhúsfræðingur frá University of Wales og stýrði Leikfélagi Akureyrar á árunum 2004 til 2008. Þá tók hann við stöðu leikhússtjóra Borgarleikhússins sem hann stýrði allt þar til hann tók við stöðu útvarpsstjóra árið 2014.