Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að líklega sé það eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint. Þannig væri hægt að aftengja atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna sem hann segir að sé í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseiganda. Ragnar fjallar um viðbrögð „gæslumanna sérhagsmunaafla“ við þeirri ákvörðun VR að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í stöðufærslu á Facebook í dag.
Svarar leiðara ritstjóra Fréttablaðsins
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í júní síðastliðnum var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða. Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi. Fjármálaeftirlitið hefur þessa ákvörðunina VR til skoðunar og mun meðal annars skoða hvernig málið sé vaxið og hvort farið hafi verið eftir lögum. VR hefur hins vegar lýst því yfir að þessi aðgerð félagsins sé fullkomlega lögleg.
Í leiðara Davíðs Stefánssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, sem birtist í Fréttablaðinu í dag segir að átakanlegt hafi verið að fylgjast með þeirri hörðu valdabaráttu sem upp sé komin innan VR. „Formaður þess vill að fulltrúar félagsins í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hlýði hans fyrirskipunum,“ ritar Davíð og spyr hvaða hagsmunum það þjóni að ráðast gegn fulltrúum félagsins í stjórn Lífeyrissjóði Verslunarmanna.
„Ef við látum það líðast að formenn verkalýðsfélaga geti beitt áhrifum sínum til þess að sjóðirnir fari að þjóna duttlungum þeirra og pólitískum hagsmunum, þá er mikilvæg forsenda velferðar okkar í hættu,“ segir Davíð.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, svarar leiðara Davíðs í stöðufærslu á Facebook í dag og segir það ekki standast að fulltrúar í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gangi erinda hans. „Í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verslunarmanna eru 25 fulltrúar. Trúir því virkilega einhver að 20 fulltrúar af 24 sem mættu á fundinn, og afturkölluðu umboð stjórnarmanna okkar í LIVE, séu undir boðvaldi formanns VR?,“ skrifar Ragnar Þór.
Hann segir jafnframt að það sé ekkert í lögum sem banni sér og stjórn VR að skipta út stjórnarmönnum í Lífeyrissjóðum. Hann bendir á að stjórnarmenn í LIVE séu ekki kosnir á aðalfundi heldur skipaður af þeim aðilum sem að sjóðnum standa. „Ég treysti því fólki, sem fulltrúaráðið valdi, fullkomlega til að taka málefnalega og sjálfstæða afstöðu í þeim málum sem kunna að koma á borð stjórnarinnar fram að þeim tíma.“
Skerðir lífskjör allra sjóðfélaga
Ragnar segir jafnframt að hátt vaxtaskil skili sér í hærri fjármagnskostnaði einstaklinga og fyrirtækja og því lægri kaupmætti, hærra vöruverði, hærri húsaleigu og hærri afborgunum húsnæðislána. Einnig dragi háir vextir getu atvinnulífsins til að standa undir launahækkunum og fjölgun starfa. „Þannig skerðir hátt vaxtastig og vaxtahækkun lífskjör þeirra 170 þúsund sjóðfélaga í Lífeyrissjóði verslunarmanna. Ekki bara þeirra 3.700 sem tóku verðtryggð lán með breytilegum vöxtum.“
Að lokum segir Ragnar að líklega sé eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint en hann bendir á að sjóðfélögum sé treystandi til að kjósa um nánast allt annað. „Líklega er eina leiðin til raunverulegra breytinga að sjóðfélagar lífeyrissjóðanna kjósi stjórnir þeirra beint og aftengjum þannig atvinnulífið og verkalýðshreyfinguna, sem er í ákveðinni mótsögn við sjálfa sig sem fjármagnseigandi. Til þess þarf einfalda lagabreytingu. Okkur er jú treystandi til að kjósa um nánast allt annað,“ segir Ragnar
Stimplar sig í hóp þeirra lobbíista sem allir sjá í gegnum
Ennfremur fjallar Ragnar um viðbrögð „gæslumanna sérhagsmunaafla“ og segir þau vera mælikvarði á hversu miklir hagsmunir séu í húfi. „Þegar þú tekur slaginn við valdamikil öfl í íslensku samfélagi þarftu að búa þig undir að hart sé að þér sótt af gæslumönnum sérhagsmunaafla sem makað hafa krókinn á því valdaójafnvægi sem þrífst í okkar samfélagi. Áróðurinn er misharður en mælikvarði á hversu miklir hagsmunir eru í húfi hverju sinni. Málefnaleg rök virðast engu máli skipta heldur það eitt að lobbíistarnir tali í sömu áttina í þeirri von um að fólkið trúi lyginni sé hún sögð nægilega oft úr sem flestum hornum sérhagsmuna. Ég hef sjaldan orðið vitni að eins hörðum viðbrögðum og persónulegum árásum við nokkru sem ég hef tekið þátt í að gera. Sem þýðir að við erum á hárréttri leið.“
Að lokum óskar hann nýjum ritstjóra Fréttablaðsins til hamingju með nýja starfið og fyrir að „stimpla sig rækilega í hóp þeirra lobbíista sem allir sjá í gegnum.“
Þegar þú tekur slaginn við valdamikil öfl í íslensku samfélagi þarftu að búa þig undir að hart sé að þér sótt af...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Monday, July 1, 2019