Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ákveðið að lækka fasta vexti óverðtryggðra lána til sjóðsfélaga, frá og með 15. júlí 2019, úr 6,12 prósentum í 5,14 prósent. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að breytingin á við um ný lán sem veitt eru frá og með þessum degi.
Þessir vextir sjóðsins eru nú hagstæðustu slíku vextirnir sem standa íbúakaupendum á Íslandi til boða. Í kjölfar breytinganna er nú hagstæðara fyrir viðskiptavini Lífeyrissjóðs verzlunarmanna að velja fasta óverðtryggða vexta en breytilega verðtryggða, þar sem verðbólga mælist nú 3,3 prósent.
Ólga í Lífeyrissjóði verzlunarmanna
Lífeyrissjóður verzlunarmanna tilkynnti í maí síðastliðnum að sjóðurinn myndi hækka breytilega vexti verðtryggðra lána til sjóðsfélaga, frá og með 1. ágúst næstkomandi, úr 2,06 prósentum í 2,26 prósent.
Stjórn VR gagnrýndi þá ákvörðun sjóðsins harðlega og lýsti stjórnin yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem stjórnin sagði að gengu í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Í kjölfarið var síðan samþykkt, á fundi fulltrúaráðs VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna þann 20. júní síðastliðinn, að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða.
Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur sagt ákvörðunin um að breyta breytilegum vöxtum verðtryggða lána sjóðsins hafa verið vegna þess að vextirnir hefðu verið „orðnir óeðlilegir“.
Frá því að tilkynnt var um ákvörðun LIVE hefur Almenni lífeyrissjóðurinn lækkað sína breytilegu vexti á verðtryggðum lánum niður í 1,84 prósent. Þá býður Birta lífeyrrisjóður upp á 1,97 prósent verðtryggða breytilega vexti, Stapi 2,08 prósent og Frjálsi 2,15 prósent.
Birta lífeyrissjóður lækkaði vexti í byrjun júlí
Birta lífeyrissjóður ákvað að lækka bæði breytilega óverðtryggða og verðtryggða vexti sjóðfélagalána þann 1. júlí síðastliðinn. Óverðtryggðir vextir lækkuðu úr 5,1 prósent í 4,85 prósent en verðtryggðir breytilegir vextir lækkuðu úr 2,31 prósent í 1,97 prósent. Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóðurinn á Íslandi ef miðað er við hreina eign til greiðslu lífeyris.