Frá því að ný persónuverndarlöggjöf tók gildi hér á landi fyrir ári síðan hefur kvörtunum til Persónuverndar fjölgað um 70 prósent. Löggjöfin veitir einstaklingum möguleika til að stýra sínum persónuupplýsingum betur en á innan við ári hafa þúsund fyrirspurnir borist Persónuvernd. Vegna manneklu hefur stofnunin hins vegar ekki náð að sinna eftirspurn að öllu leyti. Frá þessu er greint á fréttavef RÚV.
Einstaklingum veitt vald til að þekkja rétt sinn
Ný persónuverndarreglugerð tók gildi í Evrópu í maí í fyrra en reglugerðin var samþykkt af Evrópuþinginu og Evrópuráðinu í apríl 2016. Reglugerðin gengur undir nafninu GDPR sem er stytting á enska heitinu General Data Protection Regulation og á íslensku heitir hún reglugerð um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlum slíkra upplýsinga.
Á heimasíðu Persónuverndar segir að samþykkt þessara endurbóta marki tímamót í sögu persónuverndarlöggjafar í Evrópu. Um er að ræða umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi sem staðfesta að sá grundvallarréttur sem felst í vernd persónuupplýsinga einstaklinga verði tryggður fyrir alla. Þessar lagabreytingar eiga að gagnast öllum borgurum Evrópu og að einstaklingum þurfi að vera veitt vald til að þekkja rétt sinn svo þeir viti hvernig unnt sé að verja þann rétt ef hann er ekki virtur.
Í kjölfar reglugerðarinnar þurftu öll fyrirtæki að sýna fram á að þau gætu verndað allar persónugreinanlegar upplýsingar einstaklinga. Fyrirtækin þurfa einnig að geta upplýst fólk um alla meðferð fyrirtækisins og vinnslu persónuupplýsinga þeirra, sé eftir því leitað.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, sagði í samtali við Kjarnann í fyrra að samfélagsmiðlar og önnur fyrirtæki sem fólk þiggur þjónustu frá vera oft vera að vinna upplýsingar um einstaklinga langt umfram það sem flestir hafa gert sér grein fyrir. Nýju skilmálarnir séu nú allt öðruvísi heldur en löngu notendaskilmálarnir sem notendur hafa hingað til átt að venjast, og fæstir lásu þar sem þeir voru oft og tíðum upp á hundruð blaðsíðna. „Nýja löggjöfin lætur þessi fyrirtæki lýsa í mjög stuttu og auðskiljanlegu máli hvað þau eru að gera hvað varðar vinnslu persónuupplýsinga.“
Helga benti jafnframt á að reglugerðin teygir anga sína út fyrir Evrópu. „Fyrirtæki sem eru að fylgjast með evrópskum ríkisborgurum eða eru starfrækt á því svæði falla undir þessar breytingar líka. Fyrirtæki sem eru að fylgjast með hegðun fólks, bjóða vöru eða þjónustu óháð því hvort endurgjald komi fyrir, þurfa að sína fram á hvernig þeir nota og fara með þessar upplýsingar,“ sagði Helga.
Fyrirspurnum til Persónuverndar fjölgað töluvert
Vernd persónuupplýsinga er talinn hluti af EES-samningnum og löggjöfin var því tekin upp í íslenskum rétti fyrir ári síðan, þann 15 júlí 2018. Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs Persónuverndar, segir í samtali við RÚV að löggjöfin gefi fólki möguleika til að stýra sínum persónuupplýsingum betur. Frá því að lögin tóku gildi hafa þúsund fyrirspurnir borist stofnuninni en allt árið 2017 voru þær 640.
Kvörtunum til Persónuverndar hefur því fjölgað um 70 prósent á innan við ári en mannekla hjá stofnuninni hefur sett strik í reikninginn og Persónuvernd hefur ekki náð að sinna eftirspurn að öllu leyti.
Þórður segir að það sé ekki óalgengt að málsmeðferðartími nálgist ár eða jafnvel heilt ár. „Þetta hefur leitt af sér að talsverður fjöldi mála frá gildistíð eldri laga hefur enn verið óafgreiddur. Það saxast smám saman á þetta en þetta hefur auðvitað orðið til þess að stofnunin hefur ekki getað sinnt innleiðingu á nýrri löggjöf eins og vel og ella hefði verið unnt,“ segir Þórður.