Íslenski fólksbílaflotinn telur alls 220 þúsund bíla, þar af eru 3.155 hreinir rafmagnsbílar. Þá eru um 7000 tengiltvinnbílar og 1551 metanbílar hér á landi. Sala á bílum sem eru að einhverju eða öllu leyti knúnir af raforku hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum. Það sem af er ári hafa hreinir rafmagnsbílar auk tengiltvinnbíla og hybrid bíla verið tæplega 22 prósent af heildarbílasölunni hér á landi.
100.000 rafbílar eða önnur vistvæn ökutæki árið 2030
Ríkisstjórn Íslands lagði fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í september í fyrra. Markmiðið með áætluninni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að aukinni kolefnisbindingu þannig að Ísland geti staðið við markmið Parísarsamningsins til 2030 og markmið ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040. Eitt af áhersluatriðum áætlunarinnar eru orkuskipti í samgöngum sem er stærsti losunarþátturinn sem snýr að beinum skuldbindingum Íslands. Í heildina áætlar ríkisstjórnin að verja 1,5 milljarða króna til orkuskipta á fimm ára tímabili.
Eitt af þeim aðgerðum sem finna má í áætluninni er að stuðningur við innviði fyrir rafbíla og aðrar vistvænar bifreiðar. Samkvæmt áætluninni er stefnt að því að draga losun frá vegasamgöngum um 35 prósent til ársins 2030 eða um helming frá því sem nú er. Einn angi af því markmiði er að árið 2030 verða 100.000 skráðir rafbílar og önnur vistvæn ökutæki á Íslandi.
Hindrunarlaus akstur á langferðum
Í skýrslunni segir að sala á rafbílum og blandbílum hefur tekið kipp í kjölfar ívilnana í sköttum og gjöldum og uppbyggingar á hleðslustöðvum. Nú er hlutfall endurnýjanlegrar orku í vegasamgöngunum 7,7 prósent en stefnt er að því að hlutfallið verði 40 prósent árið 2030 samkvæmt þingsályktun um aðgerðaáætlun um orkuskipti.
Því réðst ríkisstjórnin í átaksverkefni með það að markmiði að fjölga aflmiklum hraðhleðslustöðvum (DC) þar sem þörf er mest til að tryggja hindrunarlausan akstur á langferðum. Orkusjóður mun úthluta 200 milljónum í styrki til uppsetningar hraðhleðslustöðvanna. Sá umsækjandi verður valinn sem býður lægsta kostnað við uppsetningu en eingöngu eru veittir fjárfestingarstyrkir og geta styrkir hæst numið 50 prósent af áætluðum kostnaði verkefnis.
Orkusjóður mun einnig veita styrki til að fjölga hleðslustöðvum við gististaði þannig mögulegt verði að auka hlutdeild rafbíla í ferðaþjónustu. Til úthlutunar eru 50 milljónir króna en eingöngu eru veittir fjárfestingarstyrkir og geta styrkir hæst numið 50 prósent af áætluðum kostnaði verkefnis.
Hreinir rafmagnsbílar, tengiltvinnbílar og hybrid bílar 22 prósent af bílasölu
Hreinir rafmagnsbílar eru nú aðeins 1,4 prósent af fólksbílaflota Íslendinga. Sala á rafbílum eykst þó með hverju ári en samkvæmt nýjustu tölum frá Bílagreinasambandinu á hafa hreinir rafmagnsbílar verið 6 prósent af öllum seldum fólksbílum það sem af er ári. Til samanburðar voru rafmagnsbílar aðeins 3,8 prósenta af heildarsölunni í fyrra og 1,2 prósent árið á undan.
Ef skoðaður eru samanlagðar tölur um sölu tengiltvinnbíla(bensín og raftengill), hybrid bíla(bensín og rafmagn) og rafmagnsbíla þá er samanlögð sala þeirra 21,7 prósent af heildar fólksbílasölunni það sem af er ári.
Í dag eru tengiltvinnbílar, rafmagnsbílar og metanbílar samanlagt 5,2 prósent af heildar fólksbílafjölda Íslands.