Alls söfnuðust 3.767.000 krónur í Málfrelsissjóðinn en söfnunin hófst þann 21. júní síðastliðinn og lauk í gær. Frá þessu er greint á Facebook-síðu sjóðsins í dag.
„Við erum í skýjunum með árangurinn og þökkum öllum sem lögðu sitt af mörkum kærlega fyrir samstöðuna. Hjálp ykkar nýtist til að umbylta því hvernig tekið er á kynbundnu ofbeldi og nauðgunum á Íslandi og mun tvíefla þær sem berjast fyrir réttlæti á þessu sviði.
Einnig er ómetanlegt fyrir þolendur að vita af slíkum stuðningi, burtséð frá peningunum sem hafa safnast. Sérstaklega þökkum við þeim hugrökku konum sem sögðu frá sínum upplifinum af því að lifa við skert málfrelsi og afleiðingum þess að mega ekki tjá sig um ofbeldið sem þær urðu fyrir,“ segir á síðu sjóðsins.
Samkvæmt sjóðnum verða næstu skref að formfesta sjóðinn og úthlutunarreglur og munu þær birta allar praktískar upplýsingar þegar þær liggja fyrir.
Í lokinn þakka þær fyrir og segja: „Við höfum sýnt að við munum ekki þagna.“
Í Málfrelsissjóð söfnuðust 3.767.000 isk á þessum eina mánuði. Við erum í skýjunum með árangurinn og þökkum öllum sem...
Posted by Málfrelsissjóður on Monday, July 22, 2019
Berjast fyrir því að fá réttarkerfinu breytt
Konurnar sem stóðu fyrir söfnuninni eru þær Helga Þórey Jónsdóttir, Anna Lotta Michaelsdóttir, Elísabet Ýr Atladóttir og Sóley Tómasdóttir.
Anna Lotta sagði í samtali við Kjarnann í júní síðastliðnum að dómurinn gegn Oddnýju Aradóttur og Hildi Lilliendahl Viggósdóttur, sem dæmdar voru til að greiða miskabætur vegna ummæla sinna í kjölfar hins svokallaða Hlíðamáls, væri fordæmisgefandi. Anna Lotta sagði að stofnendur sjóðsins væru að berjast fyrir því að fá réttarkerfinu breytt og að gefið væri að Oddný og Hildur myndu fá úr sjóðnum.
„Það er ekkert verið að dæma harðar eða oftar í kynferðisbrotamálum, en þá virðist með þessum dómi vera komið tiltölulega gott vopn gegn konum sem tjá sig um kynferðisofbeldi, að það sé hægt að kæra þær fyrir meiðyrði,“ sagði Anna Lotta.