May ávarpaði blaðamenn í hinsta sinn sem forsætisráðherra Bretlands í dag. Hún telur Brexit samning munu verða helsta viðfangsefni næstu ríkisstjórnar. Hún óskaði Boris Johnson einnig til hamingju með nýja embættið og óskaði honum velfarnaðar í sínum störfum. Jafnframt segir hún að hún muni ráðleggja drottningu að tilnefna Boris Johnson sem næsta forsætisráðherra.
Í dag mun Boris Johnson taka við keflinu sem forsætisráðherra Bretlands og mynda nýja ríkisstjórn. May hélt í kjölfarið á fund drottningar þar sem hún baðst lausnar frá embætti sínu. Hún verður þó áfram þingmaður á breska þinginu.
Hún sagðist vona að allar ungar stúlkur, hafandi séð hana sem forsætisráðherra, viti að þeim væru engin takmörk sett um hverju þær gætu áorkað.
Orðaskak Corbyn og May í morgun
Theresa May svaraði í síðasta skipti fyrirspurnum frá þingmönnum sem forsætisráðherra Bretlands í morgun. Til harðra orðaskipta kom á milli May og Jeremy Corbyn, formanns Verkamannaflokksins. May sagði að Corbyn ætti að skammast sín fyrir að hafa kosið gegn Brexit samningi hennar og að hann ætti að segja af sér. „Sem einhver sem veit hvenær sé hennar tími til að gefast upp, sting ég upp á að Corbyn átti sig á því að nú sé hans tími til að hætta runninn upp,“ sagði May.
Corbyn þakkaði May fyrir þjónustu hennar fyrir almenning. Síðan sótti hann hart að May og spurði hvort hún harmaði ástand almennings í Bretlandi, þar sem barnafátækt hefði aukist, glæpum fjölgað sem og heimilislausum. May svaraði að nú væru börn í betri skólum, meiri atvinnuþátttaka væri í Bretlandi auk þess sem aðstæður almennings hefðu batnað.
Corbyn vill að kosið verði á þing að nýju svo breskur almenningur geti kosið sinn eiginn forsætisráðherra, ekki að keflið um forsætið fari einungis á milli leiðtoga Íhaldsflokksins.