Á fyrstu sex mánuðum ársins voru umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 369. Stærstu hópar umsækjenda eru ríkisborgarar Írak, Venesúela og Afganistan. Útlendingastofnun veitti 111 einstaklingum vernd, viðbótarvernd eða mannúðarleyfi á sama tímabili, flestum frá Írak, Venesúela og Sýrlandi. Í 118 tilvikum var umsækjendum synjað um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi.
Þetta kemur fram á vef Útlendingastofnunar.
Samtals fékkst niðurstaða í 500 mál hjá stofnuninni en meðalmálsmeðferðartími allra umsókna sem afgreiddar voru með ákvörðun á fyrri helmingi ársins var 171 dagur.
Heildarfjöldi umsókna 15% meiri en í fyrra
Samkvæmt Útlendingastofnun voru umsækjendur um alþjóðlega vernd á fyrri helmingi ársins af 58 þjóðernum og var heildarfjöldi umsókna um 15 prósent meiri en á sama tímabili síðasta ár. Hlutfall umsókna frá svokölluðum öruggum upprunaríkjum var nokkru lægra en á síðasta ári eða um 20 prósent.
Stærstu hópar umsækjenda komu frá Írak, Venesúela og Afganistan. 66 prósent umsækjenda voru karlkyns og 34 prósent kvenkyns. 75 prósent umsækjenda voru fullorðnir og 25 prósent yngri en 18 ára.
Útlendingastofnun lokaði 500 málum varðandi alþjóðlega vernd á fyrri helmingi ársins. Stofnunin gerir sérstaklega athugasemd við þessa atriði og bendir á að á bak við málin séu færri en 500 einstaklingar þar sem stundum séu teknar fleiri en ein ákvörðun í máli einstaklings.
101 fengu alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd
Til efnislegrar meðferðar voru teknar 229 umsóknir en þar af voru 36 mál afgreidd með ákvörðun í forgangsmeðferð. Í 187 tilvikum var umsækjendum synjað um efnislega meðferð umsóknar, þar af voru 99 umsóknir afgreiddar með ákvörðun um endursendingu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og 88 umsóknir á grundvelli þess að viðkomandi höfðu þegar fengið vernd í öðru ríki. 84 umsóknir fengu svokölluð önnur lok, ýmist vegna þess að umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka eða hurfu frá þeim.
Af þeim 229 umsóknum sem Útlendingastofnun tók til efnislegrar meðferðar lauk 101 með ákvörðun um veitingu alþjóðlegrar verndar eða viðbótarverndar og 10 með veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Í 118 tilvikum var umsækjendum synjað um alþjóðlega vernd, viðbótarvernd og mannúðarleyfi, eins og áður segir.
Flestum synjað frá Moldóvu
Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak, Venesúela og Sýrlandi en flestir þeirra sem var synjað komu frá Moldóvu, Írak og Georgíu.
Meðalafgreiðslutími allra umsókna um alþjóðlega vernd hjá Útlendingastofnun á fyrri helmingi ársins 2019 var 171 dagur en var 156 dagar allt árið 2018. Samkvæmt Útlendingastofnun er meginskýringin á því hlutfallsleg fækkun mála sem afgreidd eru í forgangsmeðferð og fjölgun mála sem afgreidd eru í hefðbundinni efnismeðferð.
Meðalafgreiðslutími umsókna sem afgreiddar voru á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og verndar í öðru landi styttist milli fyrsta og annars ársfjórðungs og er nú 152 dagar í Dyflinnarmeðferð og 104 dagar í verndarmálum. Á sama tíma lengdist meðalafgreiðslutími í hefðbundinni efnismeðferð lítillega úr 226 dögum í 230 daga. Það sem Útlendingastofnun kallar bersýnilega tilhæfulausar umsóknir umsækjenda frá öruggum upprunaríkjum voru að jafnaði afgreiddar á fimm dögum í forgangsmeðferð á öðrum ársfjórðungi.
335 einstaklingar í þjónustu hjá sveitarfélögum
Einstaklingum í þjónustu í verndarkerfinu fjölgaði á fyrstu mánuðum ársins en hefur fækkað aftur á undanförnum mánuðum.
Í byrjun júlí nutu samtals 585 umsækjendur um vernd þjónustu í kerfinu. 335 einstaklingar voru í þjónustu hjá félagsþjónustu Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Reykjanesbæjar á grundvelli þjónustusamninga við Útlendingastofnun. Móttöku- og þjónustuteymi Útlendingastofnunar veittu 250 einstaklingum þjónustu.