Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti í dag flýtimeðferð í dómsmáli VR gegn Fjármálaeftirlitinu. Í málinu stefnir VR Fjármálaeftirlitinu og Lífeyrissjóði verzlunarmanna til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun. VR gerir kröfu um að dæmd verði ógild ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 3. júlí síðastliðnum þess efnis að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars 2019, séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu VR sem félagið sendi frá þér í dag.
Fram kom í fréttum föstudaginn síðastliðinn að fulltrúar VR hefðu afhent Héraðsdómi Reykjavíkur stefnu á hendur Fjármálaeftirlitinu. Stjórn VR samþykkti að stefna stofnuninni fyrir að viðurkenna ekki lögmæti ákvörðunar fulltrúaráðs VR um að afturkalla umboð stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna.
„Markmiðið er fyrst og fremst að fá þennan úrskurð FME dæmdan ógildan,“ sagði Ragnar Þór í samtali við mbl.is og vísaði til þess að FME lítur svo á að ákvörðun um afturköllunina væri ekki gild þar sem hún hefði ekki, að mati stofnunarinnar, verið tekin af stjórn VR eins og samþykktir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gera ráð fyrir.
Í tilkynningu VR segir að stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið haldin verulegum annmarka, bæði að formi og efni til, og sé þannig ógildanleg. „Má þar meðal annars nefna að Fjármálaeftirlitinu bar að veita VR stöðu aðila í stjórnsýslumálinu en það var ekki gert. Þá sinnti Fjármálaeftirlitið ekki tilkynningarskyldu sinni þar sem VR var ekki tilkynnt að málið væri til meðferðar og ekki heldur um niðurstöðu málsins. Þá viðhafði Fjármálaeftirlitið ekki fullnægjandi rannsókn við meðferð málsins. Fjármálaeftirlitið aflaði jafnframt ekki nauðsynlegra gagna og var ákvörðun þess því byggð á röngum upplýsingum. Fullnægjandi rannsókn hefði leitt í ljós að fulltrúaráð VR hefur fengið framselda heimild til þess að skipa stjórnarmenn í Lífeyrissjóð verzlunarmanna frá stjórn VR. Þá var VR ekki gefinn kostur á að kynna sér gögn máls eða koma að frekari upplýsingum um málsatvik og var þannig brotið gegn andmælarétti VR. Ljóst er að stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins var haldin verulegum annmörkum sem leiða til þess að ógilda beri ákvörðunina,“ segir í tilkynningu VR.