Á síðustu fimm árum hefur framboð hótelherbergja á landinu farið úr 6100 herbergjum í 10.400, sem er aukning um 70,3 prósent. Árið 2009 voru 4600 hótelherbergi á Íslandi og hefur þeim því fjölgað um 125,5 prósent á síðustu tíu árum. Þá áætlar greiningardeild Íslandsbanka að hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu muni fjölga um 1333 herbergi á næstu þremur árum.
Minni nýting milli ára
Með fækkun ferðamanna hefur greiddum gistinóttum einnig fækkað á undanförnum mánuðum. Í nýjustu gistináttatölum Hagstofu Íslands kemur fram að gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 1.124.000 í júní síðastliðnum en þær voru um 1.148.000 í sama mánuði í fyrra. Þá fækkaði gistnóttum á hótelum um 5 prósent á meðan þeim fjölgaði um 14 prósent á gistiheimilum í júní. Á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður fækkaði gistinóttum um 10,5 prósent.
Í tölum Hagstofunnar kemur jafnframt fram að herbergjanýting á hótelum í júní 2019 var 72,1 prósent sem er lækkun um 5,4 prósentustig frá júní í fyrra þegar hún var um 77,5 prósent. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 3,1 prósent, mælt í fjölda herbergja. Þá var nýtingin í júní best á Suðurnesjum, eða 79,8 prósent.
Síðan á seinni hluta ársins 2017 hefur nýting hótelherbergja lækkað í flestöllum landshlutum. Nýting hótela í Reykjavík dróst saman um tæp sex prósentustig á árinu 2018 miðað við fyrra ár eða úr 84,4 prósentum á árinu 2017 í 78,6 prósent á árinu 2018.
Hótelgisting á Íslandi ein sú dýrasta í heimi
Á tímabilinu 2011 til 2017 hækkaði verð á hótelum í Reykjavík um 60 prósent samhliða uppgangi í ferðaþjónustu. Í skýrslu Íslandsbanka um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu frá því í maí kemur fram að hótelgisting í Reykjavík sé rúmlega þriðjungi dýrari, 36 prósent, en að meðaltali hjá hótelum innan Evrópu. Þá er gistingin á bilinu 4 til 11 prósent dýrari en í stórborgum á borð við New York, Barcelona og London.
Í skýrslunni segir að hátt verðlag hér á landi rýri samkeppnishæfni landsins á alþjóðavísu og ljóst sé að lítið sem ekkert svigrúm sé fyrir frekari verðhækkanir hjá hótelum í Reykjavík, nú þegar nýting fer lækkandi og ferðamönnum fækkandi.
17 prósent fjölgun á næsta ári
Í sömu skýrslu kemur fram að það stefni í talsverða fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum þrátt fyrir að útlit sé fyrir áframhaldandi fækkun ferðamönnum.
Íslandsbanki áætlar að hótelherbergjum fjölgi um 6 prósent á árinu, 17 prósent árið 2020 og 2 prósent árið eftir. Í öðrum orðum telur bankinn bætast muni við 1333 ný hótelbergi á höfuðborgarsvæðið á næstu þremur árum.