Siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Bjartar framtíðar og þekktri baráttukona fyrir auknum mannréttindum fatlaðra, hafi ekki brotið gegn siðareglum Alþingis. Niðurstaða nefndarinnar er að ummæli af þessum togi geti skaðað ímynd Alþingis en að erfitt væri að slá því föstu.
„Augljóslega eins fötlunartengt og það getur orðið
Á upptökum af samtali þingmanna Miðflokksins á barnum Klaustur þann 20.nóvember 2018 má heyra þá gera grín að Freyju, sem þjáist af sjaldgæfum beinasjúkdómi. Anna Kolbrún, kallaði hana „Freyju eyju“ og „Eyju“ og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, gerði grín af því að tveir hinna mannanna við borðið hefðu sérstakan áhuga á Freyju og nafngreindri þingkonu Samfylkingarinnar. Einhver úr hópnum hermdi í kjölfarið eftir sel.
Í kjölfarið gagnrýndi Freyja ummæli þingmannanna harðlega og sagði meðal annars að um kerfisbundið hatur valdhafa væri að ræða. „Að líkja mér við dýr og uppnefna mig (og vegg) Freyju Eyju í kjölfar aðgengisbreytinga er augljóslega eins fötlunartengt og það getur orðið. Að taka mig fyrir með þessum hætti vegna þess að pólitískar skoðanir mínar, sem byggja á feminískum gildum, hugmyndafræði mannréttinda og upprætingu ableisma, fara í taugarnar á sumum körlum, ER fötlunarfyrirlitning og kvenfyrirlitning. Það er líka hlutgerving. Ég er ekki bara eins og dýr heldur líka dauður veggur. Það er til þúsund og ein leið til þess að tjá skoðanaágreining önnur en að hæðast að líkama og útliti kvenna,“ skrifaði Freyja í aðsendri grein í Kjarnanum í desember síðastliðnum.
Segja ummælin ekki gefa til kynna að hún ætlaði sér að tala niður til fatlaðs fólks
Í áliti siðanefndar segir að undanfarin ár hafi verið unnið að því að koma í veg fyrir hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum og efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þeirra.
„Alþingismenn bera sem áður segir sérstakar skyldur. Þeir eru opinberar persónur og geta haft mikil áhrif á samfélagið. Þeir verða að ganga á undan með góðu fordæmi. Eins og fram kemur í afmörkun forsætisnefndar geta siðareglur haft áhrif á það hvernig umfjöllun um pólitíska samherja og andstæðinga er komið á framfæri og þannig sett þingmönnum skorður. Á það t.a.m. við um ummæli sem vísa t.d. til kynferðis, útlits eða fötlunar þess sem um er rætt,“ segir í álitinu.
Enn fremur segir í álitinu að þegar ummæli þingmannanna séu virt í heild þá virðist Anna Kolbrún að mestu leyti hafa staðið utan þeirra samræðna sem fram fóru. Jafnframt segir að ummæli hennar gefi ekki til kynna að hún hafi ætlað sér að tala niður til fatlaðs fólks almennt. Hún grípi hins vegar inn í umræðunar með uppnefni á tilteknum stjórnmálamanni.
Uppnefnið ekki réttlátt með sögulegum skýringum
Í bréfi til forsætisnefndar sem dagsett er þann 3. maí 2019 hafnar Anna Kolbrún því alfarið að það sé brot á siðareglum að taka sér í munn orðin „Freyja eyja“. Hún segir að uppnefni séu oft viðhöfð um stjórnmál og í umræddu tilviki hafi uppnefnið ekki falið í sér illmælgi eins og ætti að vera ljóst ef leitast væri við að kynna sér heildarmyndina.
Siðanefndin tekur undir með Önnu Kolbrúnu og segir að rétt sé að uppnefni hafa oft verið viðhöfð um stjórnmálamenn, auk þess sem þau hafa löngum viðgengist í íslensku samfélagi. „Eru þau af ýmsum toga, viðurnefni kann að ríma við nafn eða vísa til tiltekinna einkenna viðkomandi, eins og þau dæmi sem fram koma í athugasemdum fjögurra þingmanna til siðanefndar lýsa. Þau kunna að vera góðlátleg og í þeim kann að felast einhver broddur án þess að litið verði á þau sem illmælgi“ segir í álitinu.
Aftur á móti telur siðanefnd að uppnefnið um Freyju verði ekki réttlátt með slíkum skýringum. „Það virðist eiga sér aðrar rætur og vísa til líkamlegs ástands Freyju Haraldsdóttur vegna sjúkdóms hennar,“ segir í álitinu.
Siðanefndin telur því að ummæli Önnur Kolbrúnar kunni að þessu leyti að falla undir þær skorður sem forsætisnefnd nefnir í afmörkun sinni, að siðareglur setji alþingismönnum í umfjöllun þeirra um pólitíska samherja og andstæðinga. Nefndin telur því að ummæli af þessum toga geti skaðað ímynd Alþingis en að erfitt sé að slá því föstu.
Nefndin ákveður því að láta Önnu Kolbrúnu njóta vafans og niðurstaða nefndarinnar er að ummæli hennar fari ekki gegn siðareglum Alþingis. „Í ljósi afmörkunar forsætisnefndar og hversu takmarkaðar upplýsingar liggja til grundvallar þessum ummælum telur siðanefnd rétt að Anna Kolbrún Árnadóttir njóti vafans að þessu leyti. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða siðanefndar að ummæli Önnu Kolbrúnar Árnadóttur frá 20. nóvember 2018 fari ekki gegn c- og d-lið 1. mgr. 5. gr. og 7. og 8. gr. siðareglna alþingismanna, eins og þau eru afmörkuð.“