Í kringum Ísland eru þekktar yfir 3000 tegundir af botndýrum en aðeins hluti þeirra hefur verið myndaður hingað til. Hópur vísindamanna fann eitt slíkt dýr, í leiðangri sínum við að kortleggja búsvæði á hafsbotni, sem hópurinn hafði ekki séð áður og hefur ekki enn fundið út hvað í raun er. Hvort þetta dýr tilheyri einhverri af þekktu tengdunum eða um hvort að nýja tegund sé að ræða við Ísland veit hópurinn ekki.
Ekki vitað hver áhrif súrnun sjávar hefur á botndýr
Leiðangurinn er hluti af gagnasöfnun Hafrannsóknarstofnunar fyrir langatímaverkefnið Kortlagning búsvæði, þar sem ólík búsvæði á hafsbotninum við landið eru skilgreind og fjölbreytileiki þeirra skoðaður. Lagt er mat á hvort um fágæt eða viðkvæm búsvæði sé um að ræða og hvort grípa þurfi til aðgerða til verndar þeim.
Lífríkið á botni sjávar er stór og mikilvægur hluti af lífkeðju hafsins og afkomu margra fiska. Ekki hefur hins vegar verið fylgst með því líkt og fiskstofnum hér á landi. Hvernig botnlífverur hafa brugðist við auknu hita eða súrnun sjávar er til dæmis ekki vitað.
„Með því að skoða á skipulagðan hátt lífríkið á botninum komumst við nær því að þekkja náttúrulegan fjölbreytileika á sjávarbotninum við landið, en einnig sjáum við líka áhrif mannsins á lífríkið og umhverfið. Við myndum bæði ósnortin svæði og innan við veiðislóðir. Valin eru svæði með ólíka botngerð og á mismunandi dýpi. Sérstök áhersla er á að leita uppi viðkvæm og fágæt búsvæði eins og kóralrif, kóralgarða og svampabreiður,“ segir í tilkynningunni.
Ánægjulegt að sjá lifandi kóralrif og akra af sæfjöðrum
Í tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar segir að ýmislegt áhugavert hafi komið fram á neðansjávarmyndum þegar hópur undir leiðsögn Steinunnar H. Ólafsdóttur, sjávarvistfræðingur á Hafrannsóknarstofnun, kannaði í lífríki hafsbotnsins í júnílok og byrjun júlí á þessu ári.
Í fyrri kortlagningaleiðöngrum hópsins hefur komið í ljós að fjölbreytileiki botndýralífs er mikill víða í landgrunnskantinum suður af landinu og þar eru þegar þekkt kóralsvæði. Í júní leiðangrinum fann hópurinn lifandi kóralrif á nokkrum stöðum í bröttum landgrunnskantinum og á öðrum stöðum voru akrar af sæfjöðrum sem er ánægjulegt að mati hópsins. Þau svæði eru utan við veiðislóð enda í bröttum kantinum en ofan á kantinum voru hins vegar dauð kóralrif enda er veiðiálag þar mikið og kóralrifin sem einu sinni voru þar hafa horfið.
Hópurinn myndaði alls 70 snið eftir botninum í 100 til 700 metra dýpi. Unnið verður úr myndunum og öll dýr greind og talin og botngerð og rusl og slitin veiðarfæri skráð.