Belti og braut getur þjónað sem nýr vettvangur og veitt kínversk-íslenskri samvinnu ný tækifæri og myndi þátttaka Íslands styrkja tengsl á milli landanna. Hún gæti jafnframt aukið samvinnu í viðskiptalífi og verslun á milli landanna tveggja. Þetta segir Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans.
Innviða- og fjárvestingaverkefnið Belti og braut (kínv. 一带一路, e. Belt and Road Initiative) er verkefni sem einkennt hefur utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn forseta landsins, Xi Jinping. Með Belti og braut er vísað til hinnar fornu Silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og vill Xi Jinping endurvekja hana undir formerkjum Beltis og brautar. Belti og braut – eða Silkileið 21. aldarinnar – skiptist í stuttu máli í svokallaðan silkiveg eða „belti“ á landi, til dæmis í formi lestarteina og hraðbrauta. Hinn hlutinn er silkileið á sjó eða „braut“ – til dæmis í formi hafna sem þar að auki tengir Kína við umheiminn.
Segir íslensk stjórnvöld opin fyrir þátttöku
Jin segir að íslensk stjórnvöld séu opin fyrir þátttöku í Belti og braut og að með stuðningi Beltis og brautar, AIIB og Silkivegssjóðsins gætu Kína og Ísland unnið betur saman með því að byggja tengslanet á sjó, lofti og á netinu. Auk þess væri hægt að byggja upp innviði fyrir ferðamenn, koma á siglingaleiðum um Silkiveg norðurslóða, beinu flugi og 5G samskiptakerfi.
Íslensk stjórnvöld hafa þó ekki mótað sér endanlega afstöðu til verkefnisins, að því er fram kemur í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Í svarinu segir að ráðuneytið hafi haft málið til skoðunar í því augnamiði að greina hvað í framtakinu felist og hvað aðild eða tenging við það gæti þýtt fyrir íslenska hagsmuni.
Sendiherrann segir að þátttaka Íslands gæti aukið samvinnu í viðskiptalífi og verslun á milli landanna tveggja. Það sé vegna þess að hagvöxtur í Kína er stór hluti heimshagkerfisins og þurfi kínverski markaðurinn nú að mæta aukinni eftirspurn á vörum, þar á meðal á vörum frá Íslandi.
„Með batnandi lífskjörum kjósa fleiri og fleiri Kínverjar að ferðast utan landsteinanna. Ísland hefur hlotið aukinn fjölda kínverskra ferðamanna árlega sem hefur aukið þjónustuviðskipti á Íslandi. Á sama tíma gæti Belti og braut stutt við fríverslunarsamning landanna okkar tveggja sem myndi efla vöxt tvíhliða viðskipta á vörum og þjónustu og samvinnu í netverslun og auka tvíhliða fjárfestingar,“ segir sendiherrann.
Sex billjón Bandaríkjadala
Með Belti og braut er lögð áhersla á sameiginlegan ávinning Kína og þeirra ríkja sem taka þátt í Belti og braut, segir Jin. „Belti og braut einblínir á samhæfða stefnu, innviðatengsl, óhindruð viðskipti, fjárhagslega samþættingu og sterkari tengsl fólks. Verkefnið leitast eftir opinni, grænni og hreinni þróun,“ segir Jin.
Sendiherrann segir að verkefnið hafi fengið mikinn meðbyr og stuðning alþjóðasamfélagsins. „Í dag hefur Kína skrifað undir samstarfssamninga á grundvelli Beltis og brautar við 127 ríki og 29 alþjóðlegar stofnanir. Viðskiptamagn á milli Kína og landa sem eru hluti af Belti og braut er meira en sex billjón Bandaríkjadala og fjárfestingar meira en 80 milljarðar Bandaríkjadala.“
Rafrænn Silkivegur möguleiki
„Kína og Ísland geta einnig eflt samvinnu sína í framleiðslu á snjalltækni, rafrænum efnahag og verndun hugverkaréttinda, kannað nýja tækni, ný form og leiðir til viðskipta, ásamt því að styrkja samvinnu með stór gagnasett, skýjatækni og uppbyggingu snjallra borga,“ segir Jin.
Ísland gæti fengið aukið aðgengi að fleiri mörkuðum með þátttöku í Belti og braut, samkvæmt sendiherranum. „Að því leyti getur háþróuð tækni Íslands í jarðvarma komist á stærri vettvang þegar hún er sameinuð fjármagni og markaði landa í Belti og braut,“ segir hann.
Hver áhrif þátttaka Íslands í verkefninu yrðu á stjórnmálalegt samband ríkjanna tveggja telur Jin að þátttaka Íslands í Belti og braut myndi vissulega vera tvíhliða samskiptum Kína og Íslands hagstæð. Ríkin gætu þannig dýpkað samvinnu sína með aðstoð Beltis og brautar.
Varðandi hverjar afleiðingarnar yrðu fyrir Ísland ef það kysi að taka ekki þátt í Belti og braut segir Jin: „Ég vona og trúi að íslensk stjórnvöld ákveði að taka þátt í Belti og braut í nákominni framtíð. Mig langar ekki að sjá Ísland missa af stórum tækifærum sem Belti og braut skapar.“
Umdeilt framtak
Margir hafa þó gagnrýnt verkefnið og telja sumir að kínversk stjórnvöld vilji nota það til þess að auka stjórnmálaleg áhrif sín í heiminum. Bandaríkin eru eflaust það ríki sem er opinberlega hvað mest mótfallið verkefninu. Bæði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og utanríkisráðherra, Mike Pompeo, hafa gagnrýnt framtakið og sagt það varpa ríkjum í skuldagildru. Gagnrýnendur vísa einnig oft til aðstæðna Srí Lanka í því samhengi.
Í suðurhluta Srí Lanka hafa kínversk fyrirtæki einkaleigurétt til 99 ára á höfn sem kölluð er Hambantota höfnin. Það er vegna þess að stjórnvöld í Srí Lanka gátu ekki greitt skuld sína við kínversku fyrirtækin sem byggðu höfnina.
Bandaríkjamenn hafa jafnframt gagnrýnt skilmála sem ýmsar þjóðir hafa gengist við þar sem kínversk ríkisfyrirtæki standi að byggingunni eða lán undir formerkjum Beltis og brautar með það að skilyrði að kaupa vörur frá kínverskum fyrirtækjum.