Valitor Holding, dótturfélag Arion banka sem á greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor, tapaði 2,8 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Bókfært virði félagsins, sem er til sölu, er nú 13,2 milljarðar króna en var 15,8 milljarðar króna um síðustu áramót. Það hefur því lækkað um 2,6 milljarða króna á síðustu sex mánuðum. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Arion banka sem birtur var í gærkvöldi.
Valitor Holding tapaði 1,9 milljarði króna í fyrra. Félagið hafði skilað um 940 milljón króna hagnaði ári áður.
Einn stærsti viðskiptavinur Valitor, Stripe, hætti færsluhirðingarviðskiptum sínum við Valitor um mitt ár 2018, líkt og Kjarninn greindi frá í mars í fyrra að stæði til. Þessi ákvörðun Stripe leiddi til þess, samkvæmt afkomutilkynningu frá Valitor sem send var út fyrr á þessu ári, að velta fyrirtækisins fluttist frá Valitor sem „hafði talsverð áhrif á vöxt tekna og viðskipta Valitor á árinu.“
Arion banki ætlar sér að selja Valitor á næstu tólf mánuðum og hefur ráðið alþjóðlega bankann Citi til að veita söluráðgjöf.
Landsbankinn borgaði 426 milljónir af skaðabótum Valitor
Valitor samdi fyrr á þessu ári um að greiða Datacell og Sunshine Press Productions, félagi tengt Wikileaks, 1,2 milljarða króna fyrr á þessu ári í skaðabætur. Sú greiðsla beit fast í rekstur félagsins.
Fjallað er um samkomulagið í árshlutareikningum bæði Landsbankans og Arion banka. Í reikningi Arion banka segir að Sunshnie Press Production hafi fengið greitt 1.140 milljónir króna í bætur en Datacell 60 milljónir króna. Nú standa yfir deilur á milli þeirra félaga um hlutdeild Datacell, sem vill hærri hluta heildarupphæðarinnar.
Lokuðu greiðslugátt
Málið á rætur sínar í að Wikileaks tók við styrkjum fyrir starfsemi sína í gegnum greiðslugátt sem Datacell og Sunshine Press Production ráku. Greiðslugáttin var opnuð 7. júlí 2011 en degi síðar sleit Valitor samningnum fyrirvaralaust. Með dómi árið 2013 komst Hæstiréttur að því að riftunin hafi veri ólögmæt, og hefur síðan verið deilt um skaðann og skaðabætur vegna fyrrnefndrar aðgerðar.
Valitor sendi frá sér tilkynningu í kjölfar dómsins í apríl og sagði félagið að niðurstaða Héraðsdóms kæmi mjög á óvart og að fyrirtækið myndi fara yfir dómsniðurstöðuna og væntanlega áfrýja málinu til Landsréttar. Í kjölfarið náðist sátt milli deiluaðila um greiðslu á 1,2 milljarði króna í skaðabætur.