Sigríður Á. Andersen, sem sagði af sér sem dómsmálaráðherra fyrr á þessu ári eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu, gæti sest aftur í ríkisstjórn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þetta á opnum fundi þingflokks flokksins í Valhöll fyrr í dag. Samkvæmt frétt mbl.is um málið svaraði Bjarni spurningu um mögulega endurkomu Sigríðar svona: „Að sjálfsögðu getur hún átt endurkomu í ríkisstjórn.“
Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í mars síðastliðnum að Sigríður og Alþingi hafi skipað fjóra dómara af þeim 15 sem voru upphaflega skipaðir í Landsrétt með ólögmætum hætti. Sigríður þurfti að segja af sér embætti dómsmálaráðherra vegna málsins. Hún sagði á blaðamannafundi af því tilefni að hún væri að víkja til hliðar tímabundið, en slíkt er ekki hægt samkvæmt íslenskri stjórnskipan.
Kjarninn greindi frá því á sínum tíma að afsögn Sigríðar hafi orðið meðal annars vegna þess að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði komið því skýrt á framfæri við formenn samstarfsflokka sinna að Sigríður yrði að axla ábyrgð á málinu með afsögn.
Íslenska ríkið ákvað í kjölfarið að áfrýja niðurstöðunni til efri deildar dómstólsins og nú er beðið eftir ákvörðun um hvort hún muni taka málið fyrir eða ekki.
Sagði Samfylkinguna taka afstöðu gegn Íslandi
Sigríður tjáði sig um Landsréttarmálið í stöðuuppfærslu á Facebook í síðustu viku. Tilefnið voru orð Helgu Völu Helgadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, vegna svarleysis núverandi dómsmálaráðherra vegna fyrirspurnar hennar um kostnað hins opinbera af Landsréttarmálinu svokallaða.
Helga Vala sagði í stöðuuppfærslu á Facebook fyrr sama dag að ráðherrann hefði ekki svarað margítrekuðum fyrirspurnum sínum um málið og velti því fyrir sér hvort það gæti ekki verið að henni væri ekki svarað „því það er verið að bíða eftir nýjum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokks og sú sem þar situr vill bara alls ekki fá þennan skít á sig?“
Sigríður sagði Helgu Völu nota „orðið „skítur“ um það að íslenska ríkið taki til varna þegar að hagsmunum Íslands og íslenskrar stjórnskipunar er sótt í gegnum erlendar stofnanir. Það kemur svo sem ekki á óvart að Samfylkingin taki afstöðu gegn Íslandi eins og hún gerði í Icesave málinu og með umsókninni og aðlöguninni að Evrópusambandinu á sínum tíma. En þetta orðbragð lýsir alveg nýjum metnaði gegn hagsmunum Ísland.“
Kallaði Mannréttindadómstólinn pólitíska stofnun
Í stöðuuppfærslunni sagði Sigríður að ráðherra, Alþingi og forseti Íslands hafi allir komist að sömu niðurstöðu um skipun 15 dómara við Landsrétt. „Hæstiréttur komst svo að þeirri niðurstöðu að við dómurunum 15 yrði ekki hróflað og að sakborningar nytu réttlátrar málsmeðferðar fyrir dóminum. Allar greinar ríkisvaldsins voru samstíga um niðurstöðuna. Aldrei áður hafa dómarar verið skipaðir með svo þéttum stuðningi allra greina ríkisvaldsins. Landsréttur starfaði svo með miklum ágætum á annað ár.
Sigríður bætti við að önnur ástæða fyrir ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu væri sú ákvörðun Alþingis, þvert á það sem hún hafi lagt til við Alþingi, að greiða atkvæði í einu lagi um allar 15 tillögurnar. „Þeir sem stóðu að þessu „mannréttindabroti“ á sakborningi að mati MDE voru meðal annarra þingmenn Samfylkingarinnar.“
Sagði Sigríði ekki vera Ísland
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, svaraði Sigríði síðan, einnig á Facebook, í gær. Þar skrifaði hann, um orð Sigríðar þess efnis að Samfylkingin tæki afstöðu gegn Ísland, eftirfarandi: „Þvílík og önnur eins skítarök hef ég sjaldan heyrt áður. Já, mér finnst orðið skítur viðeigandi við þetta tilefni.“
Björn Leví sagði að það hefði ekki verið Ísland sem hafi verið í vörn út af Landsréttarmálinu. „Það er vörn fyrir fyrrverandi dómsmálaráðherra sem fótum tróð upplýsingaskyldu sína gagnvart Alþingi þegar gögn um ráðleggingar sérfræðinga ráðuneytisins voru hunsuð og þeim var ekki deilt með þinginu og sagt að engin andmæli væru við þeim málatilbúnaði sem fyrrverandi dómsmálaráðherra fór fram með. Sigríður Á. Andersen er ekki Ísland, hún tók þessa ákvörðun út frá sinni persónulegu þekkingu og hefur því ekkert með að draga einhverja þjóðernishyggju inn í þetta mál. Það er ömurleg sjálfsvörn að spila málið upp þannig.“