Kínverski herinn hefur safnað liði í Shenzhen, borg sem liggur að landamærum Hong Kong. Fjölmargir brynvarðir bílar, trukkar og önnur farartæki kínverska hersins hafa haldið til Shenzhen á síðustu dögum. Þetta kemur fram á vef Alþýðublaðsins, kínversks ríkismiðils.
Samkvæmt fréttinni er um „vopnaða lögreglu“ að ræða sem er sérhæfð í því að kljást við „uppreisnir, óeirðir, alvarleg ofbeldisfull og ólögleg atvik, hryðjuverkaárásir og önnur félagsleg atvik er varða öryggi,“ að því er segir í fréttinni.
Mótmælin stigmögnuðust í vikunni þegar þúsundir mótmælenda flykktust á Alþjóðaflugvöllinn Hong Kong. Vegir sem liggja að flugvellinum voru tepptir og öll bílastæði full, samkvæmt þarlendum yfirvöldum. Öllu flugi til og frá Hong Kong var frestað í kjölfarið en hefur nú hafist á ný. Til harðra átaka kom á milli mótmælenda og lögreglu sem beitti kylfum og piparspreyi á mótmælendur.
Fylgjast grannt með þróun mála í Hong Kong
Á vefsvæði kínverska varnarmálaráðuneytisins segir að kínverski Alþýðuherinn sé tilbúinn að hjálpa Hong Kong með öryggisgæslu, leitist yfirvöld í Hong Kong eftir því. Á vefnum segir að varnarmálaráðuneytið fylgist grannt með þróun mála í Hong Kong og vísar til kínverskra laga að Alþýðuherinn hafi rétt á að setja niður herlið í Hong Kong, kjósi yfirvöld í Hong Kong það.
Nýjar gervihnattarmyndir sýna einnig kínverskt herlið í Shenzhen. Svo virðist sem herliðið hafist við á risavöxnum íþróttavelli í borginni. Myndirnar sýna meira en hundrað farartæki á vellinum.
AFPTV EXCLUSIVE VIDEO: @AFP has captured images of thousands of Chinese military personnel parading at a sports stadium across the border from Hong Kong pic.twitter.com/0xlNUZqZdq
— AFP news agency (@AFP) August 15, 2019
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að kínverskum stjórnvöldum beri að koma fram við Hong Kong á mannúðlegan hátt, ellegar að stefna fríverslunarsamningi við Bandaríkin í hættu. Bandaríska utanríkisráðuneytið hefur jafnframt lýst yfir miklum áhyggjum á ferðum kínverska hersins í átt að landamærunum.
Our Intelligence has informed us that the Chinese Government is moving troops to the Border with Hong Kong. Everyone should be calm and safe!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 13, 2019