Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, haldi því fram að tilefni heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands sé samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála. Guðlaugur Þór hafi þó sleppt því að nefna að ástæða heimsóknarinnar sé að undirstrika landfræðilegt mikilvægi Íslands á norðurslóðum og aðgerðir NATÓ til að bregðast við auknum umsvifum Rússlands.
„Mörgum brá eðlilega í brún snemmsumars þegar ríkisstjórnin færði 300 milljónir af fyrirhuguðum framlögum til þróunaraðstoðar í viðhald mannvirkja NATÓ á Keflavíkurflugvelli. Enn frekar þegar í ljós kom að umfang framkvæmda virðist margfalt það sem kynnt var,“ segir í færslunni.
NATO og norðurslóðir helsta umræðuefnið
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mun koma í opinbera heimsókn til Íslands 4. september næstkomandi. Pence mun einnig heimsækja Bretland og Írland í þessari ferð þar sem hann kemur fram fyrir hönd Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu sem birt var í gærkvöldi. Þar segir að í ferð sinni til Íslands muni Pence undirstrika mikilvægi Íslands á Norðurslóðum og ræða aðgerðir NATO til að vinna gegn auknum yfirgangi Rússa á því svæði. Þá muni hann ræða tækifæri til að ræða aukningu á viðskiptum og fjárfestingum milli landanna, en enginn fríverslunarsamningur er í gildi sem stendur milli Íslands og Bandaríkjanna.
Í viðtali um heimsókn Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna til Íslands, hélt Guðlaugur Þór utanríkisráðherra því fram að...
Posted by Logi Einarsson on Thursday, August 15, 2019