Átta konur komast á lista yfir 100 launahæstu forstjóra landsins sem birtur er í tekjublaði Frjálsrar verslunar.
Tekjublaðið, þar sem tekjur 3.725 Íslendinga eru opinberaðar á grundvelli upplýsinga á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra (RSK), kom út í dag.
Sú kona í forstjórastöðu sem situr efst á þeim lista er Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Ísland. Hún var með tæplega 6,3 milljónir króna á mánuði. Herdís Dröfn Fjeldsted, sem var framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands, fjárfestingarsjóðs í eigu Landsbankans og lífeyrissjóða, var með 6,1 milljón króna í mánaðarlaun í fyrra, en hún tók einnig sæti í stjórn Arion banka á því ári. Hún situr í 13. sæti lista Frjálsrar verslunar.
Erna Gísladóttir, hluthafi og forstjóri bílaumboðsins BL situr svo í 20. sæti listans en meðallaun hennar á mánuði í fyrra voru tæplega 5,1 milljónir króna.
Þær sitja í 25. og 50. sæti á listanum yfir hæstlaunuðustu forstjóranna. Á milli þeirra á listanum er svo Hrund Rudólfsdóttir, forstjóri Veritas Capital, með 4,7 milljónir króna í mánaðarlaun. Hún situr í 29. sæti á listanum.
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, situr í sæti 55 á lista Frjálsrar verslunar með tæplega 3,7 milljónir króna á mánuði. Síðasta konan til að ná inn á topp 100 er svo Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, sem var með tæplega 3,2 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra að meðaltali og nær að setjast í 74. sæti listans á grundvelli þeirra.
Karlar ráða sér í efstu sætin
Jón Björnsson, fyrrverandi forstjóri Festis, var tekjuhæsti forstjóri landsins í fyrra með um 28,4 milljónir króna á mánuði. Jón stýrði Festi, sem rekur N1, Krónuna, Elko og Bakkann, þangað til í byrjun september í fyrra.
Þar á eftir komu Kári Stefánsson, með 27,5 milljónir króna á mánuði, og Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, með 27,4 milljónir króna á mánuði. Íslensk erfðagreining sendi frá sér athugasemd í morgun þar sem fram kemur að mánaðarlaun Kára Stefánssonar hjá fyrirtækinu séu 7,5 milljónir króna, en ekki sú tala sem tilgreind er í tekjublaðinu. „Mismunurinn stafar að mestu af því að Kári Stefánsson ákvað leysa til sín sparnað úr séreignasjóði lífeyrissjóðs í fyrra. Sú eingreiðsla bætist við skattstofninn og þannig verður þessi misskilningur til.“
Samkvæmt þessu voru sex forstjórar með mánaðarlaun sem voru yfir tíu milljónum króna á mánuði. Níu forstjórar voru með laun yfir átta milljónum á mánuði þar sem þeir Árni Oddur Þórðarson (8,9 milljónir króna á mánuði), forstjóri Marel, Jón Þorgrímur Stefánsson (8,2 milljónir króna á mánuði), forstjóri NetApp, og Carlos Cruz (8,1 milljón króna á mánuði), forstjóri Coca Cola á Íslandi, náðu líka þeim áfanga.
Allir níu forstjórarnir sem voru með yfir átta milljónir króna í mánaðarlaun eru karlar.