Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans, segir að fjárhagsvandræði sín hafi fyrst og fremst stafað af „afar íþyngjandi kyrrsetningaraðgerð sem Tollstjóraembættið gerði á öllum mínum eigum að kröfu Skattrannsóknarstjóra á sínum tíma. Eignir fyrir vel á annað hundrað milljónir króna voru kyrrsettar um langt skeið með tilheyrandi fjártjóni og vandræðum fyrir mig, svo sem nærri má geta.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann birti í Facebook í dag. Tilefni skrifa hans er frétt sem birtist á Stundinni í gær þar sem greint var frá því að Björn Ingi hefði haft tæplega 2,9 milljónir króna í mánaðarlaun í fyrra. Þá var farið yfir það í fréttinni að Björn Ingi hefði verið grunaður um brot vegna bókhalds og skattskila á árunum 2014 til 2017.
Björn Ingi segir í stöðuuppfærslunni að fréttir af fjárhagsvandræðum hans í Stundinni séu orðnar óteljandi og að sérstakt rannsóknarefni sé sú „áhersla sem þar er lögð á að setja mín persónulegu mál í neikvætt ljós aftur og aftur. Nú eru tólf ár liðin frá því ég hætti afskiptum af stjórnmálum, en af fréttaflutningi Stundarinnar að dæma mætti ætla að ég hafi átt sæti í ríkisstjórn Íslands allan þann tíma.“
Segist saklaus uns sekt sannast
Kyrrsetningin tollstjóra á eigum hans upp á 115 milljónir króna var tilkomin vegna skattrannsóknarinnar á Birni Inga, sem felld var niður í lok janúar síðastliðins.
Krafan um nauðungaruppboð er í fjórum eignum Björns Inga að Másstöðum í Hvalfirði og var uppboðið auglýst í síðasta mánuði. Gerðarbeiðendur eru auk sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, Ríkisskattstjóri, Hvalfjarðarsveit og Vátryggingafélag Íslands.
Björn Ingi segist hvetja til þess að varlega verði farið í kyrrsetningaraðgerðir í framtíðinn að hálfu hins opinbera. „Hver maður er saklaus uns sekt hans sannast, þótt ekki geri allir fjölmiðlar mikið með þá mikilvægu meginreglu réttarríkisins. Einstaklingur má sín lítils gegn kerfinu við slíkar aðstæður og þótt ég hafi alltaf vitað að sannleikurinn kæmi fram að lokum, var ömurlegt fyrir mig og fjölskyldu mína að þurfa að búa við óvissu og óöryggi jafn lengi og raun bar vitni.“
Vegna endurtekinnar umfjöllunar Í Stundinni í gærkvöldi er enn á ný fjallað um persónuleg fjármál mín og...
Posted by Björn Ingi Hrafnsson on Tuesday, August 20, 2019