Hlutur þjóðkirkjunnar í hjónavígslum hefur farið minnkandi undanfarin ár. Um síðustu aldarmót fóru um 70 prósent hjónavígsla fram í þjóðkirkjunni en á síðasta ári var hlutfallið innan við 50 prósent. Á sama tímabili hafa hjónavígslum hjá sýslumanni fjölgað verulega eða farið úr rúmlega 13 prósent um aldarmótin í rúmlega 31 prósent í fyrra. Þá hefur hlutur annarra trúfélaga aukist úr 7 prósent í rúmlega 15,5 prósent.
Í tölum Þjóðskrár má sjá að af þeim 484 einstaklingum sem giftu sig í síðasta mánuði kusu um tæplega 50 prósent að gera það hjá þjóðkirkjunni.
Þá gengu 144 í hjúskap hjá sýslumanni í júlí síðastliðnum eða 29,8 prósent, 82 einstaklingar gengu í hjúskap í öðru trúfélagi og 18 einstaklingar gengu í hjúskap erlendis.
Fækkar áfram í þjóðkirkjunni
Á sama tíma og sífellt færri ganga í hjúskap innan þjóðkirkjunnar þá fækkar einnig þeim sem skráðir eru í kirkjuna. Frá 1. desember á síðasta ári hefur skráðum í þjóðkirkjunni fækkað um 632 manns á tímabilinu. Nú eru 232.040 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna.
Þessar tölur ríma við þróun síðustu ára en í byrjun árs 2009 náði fjöldi þeirra landsmanna sem skráðir eru í þjóðkirkjuna mettölu, en þá voru 253.069 landsmenn í henni. Frá þeim tíma hefur þeim fækkað jafnt og þétt.
Miklu fjármagni ráðstafað til þjóðkirkjunnar í fyrra
Tilveruréttur þjóðkirkjunnar er tryggður í stjórnarskrá landsins. Þar segir að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið eigi bæði að styðja hana og vernda.Í krafti þessa fær þjóðkirkja umtalsverða fjármuni úr ríkissjóði. Þaðan er til að mynda greitt framlag til Biskups Íslands, í Kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna.
Fram kom í fréttum í desember síðastliðnum að í fjáraukalögum vegna ársins 2018 hefði fjárheimild til trúmála verið hækkuð um 820 milljónir króna. Þessi hækkun skýrðist annars vegar af því að framlag til þjóðkirkjunnar hefði verið aukið um 857 milljónir króna og hins vegar hefðu framlög vegna sóknargjalda lækkað um 37 milljónir króna vegna endurmats á fjölda einstaklinga í skráðum trúfélögum.
Þetta framlag kom til viðbótar því fjármagni sem þegar hafði verið ráðstafað til þjóðkirkjunnar á fjárlögum. Samtals var áætlað að þessi upphæð yrði 2.830 milljónir króna árið 2018. Til viðbótar fékk þjóðkirkjan greidd sóknargjöld í samræmi við þann fjölda sem í henni var. Samtals kostaði rekstur þjóðkirkjunnar því tæplega 4,6 milljarða króna árið 2018 áður en að viðbótarframlagið var samþykkt. Það hækkaði ríkisframlagið um tæp 19 prósent.
Þá er ekki meðtalið rúmlega 1,1 milljarðs króna framlag til kirkjugarða.