Umsóknum um kennaranám fjölgaði verulega á milli ári hér á landi eða um alls rúmlega 200 umsóknir. Þá fjölgaði umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum um 45 prósent og þar af fjölgaði karlkyns umsækjendum verulega. Alls sóttu helmingi fleiri karlar um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands í vor en í fyrra og þrefalt fleiri karlar um nám í leiksskólakennarafræðum. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Nemendum á leik- og grunnskólastigi býðst launað starfsnám
Í mars síðastliðnum kynnti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, aðgerðir stjórnvalda til þess að taka á kennaraskorti í landinu. Aðgerðirnar fela meðal annars í sér launað starfsnám, námsstyrk til nemenda og styrki til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn.
Frá og með þessu hausti býðst nemendum á lokaári í meistaranámi til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Samkvæmt upplýsingum frá háskólunum gengur mjög vel að finna starfsnámstöður fyrir kennaranema en 96 prósent þeirra sem eftir því sækjast hafa þegar fengið stöðu.
Umsóknum um nám í listkennslu fjölgaði um 170 prósent
Síðastliðið vor fjölgaði umsóknum um kennaranám verulega á milli ára eða um rúmlega 200 í háskólunum fjórum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi. Aukning í umsóknum var hlutfallslega mest hjá Listaháskóla Íslands þar sem umsóknum um nám í listkennsludeild fjölgaði um 170 prósent milli ára.
Jafnframt fjölgaði umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands um 45 prósent. Þá fjölgaði verulega karlkyns umsækjendum í þeim hópi en um helmingi fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þá fjölgaði einnig umsóknum um nám leiðsagnakennara.
Mennta-og menningarmálaráðherra segir það vera mikið fagnaðarefni að vísbendingar séu um að aðgerðir sem stjórnvöld réðust í síðasta vor séu farnir að skila árangri. „Umsóknum um kennaranám fjölgar verulega milli ára og einnig gekk mjög vel að útvega kennaranemum á lokaári launaðar starfsnámsstöður. Til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar þurfum við enn fleiri fjölhæfa og drífandi kennara og það er einkar ánægjulegt að fleiri íhugi nú að starfa á þeim vettvangi,“ segir Lilja.