Mikil aukning hefur orðið á fjölda skráðra heimagistinga í kjölfar eflingar Heimagistingarvaktarinnar síðasta sumar. Fjöldi skráninga nær tvöfaldaðist á einu ári og það sem af er ári hefur sýslumaður skráð 2033 heimagistingar. Þá eru fyrirhugaðar og álagðar stjórnvaldssektir vegna átaksins 94,6 milljónir króna.
Um 50 prósent heimagistinga án tilskilinna leyfa
Rúmlega 8000 gistirými voru auglýst til útleigu hér á landi á bókunarsíðunum Airbnb og Homeaway í júní síðastliðnum, samkvæmt Mælaborði ferðaþjónustunnar. Þar af voru flest á höfuðborgarsvæðinu eða rúmlega 4000 gistirými á höfuðborgarsvæðinu, 1443 á Suðurlandi og 255 á Suðurnesjunum. Ekki liggja þó fyrir upplýsingar hjá Mæliborðinu um auglýsingar á öðrum bókunarsíðum.
Í júní í fyrra undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála, og Þórólfur Halldórsson, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, samkomulag þess efnis að eftirlit með heimagistingu yrði virkara og sýnilegra með styrkingu á heimagistingarvakt Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Mikil aukning hefur orðið á fjölda skráðra heimagista í kjölfarið. Í svari Þórdísar Kolbrúnar við fyrirspurn á Alþingi um leigu húsnæðis til ferðamanna kemur fram að fjöldi skráningu hefur nær tvöfaldast. Skráningar fór úr því að vera 1056 í lok árs 2017 í 2022 í lok árs 2018. Þá hefur sýslumaður staðfest 2033 skráningar, nýskráningar og endurnýjaðar skráningar, það sem af er ári.
Í svarinu kemur jafnframt fram að þrátt fyrir þessa aukningu í skráningu áætlar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu að um helmingur skammtímaleigu hér á landi fari enn fram án tilskilinna leyfa eða skráningar.
17 milljónir í skráningargjöld það sem af er ári
Þórdís Kolbrún segir jafnframt að reynslan af átakinu sýni að samanlagðar fjárhæðir álagðra og fyrirhugaðra stjórnvaldssekta auk innheimtra skráningargjalda nemi hærri fjárhæð en þær 64 milljónir króna sem veittar voru til embættis sýslumanns vegna verkefnisins.
Samanlögð upphæð skráningargjalda, stjórnvaldssekta og fyrirhugaðra stjórnvaldssekta frá ársbyrjun 2017 nemur í dag 138.350.160 krónum. Þar af nema fyrirhugaðar og álagðar stjórnvaldssektir vegna átaksins 94.6 milljónum.
Jafnframt kemur fram í svarinu að frá ársbyrjun 2017 hefur sýslumaður innheimt tæpar 44 miljónir í skráningargjöld vegna heimagistingar. Þar af námu skráningargjöld 9.039.360 krónum árið 2017, 17.308.320 í fyrra og 17.402.480 það sem af er árinu 2019.
Lagt var upp með að átaksverkefnið yrði til eins árs en í lok júní síðastliðnum framlengdi ráðherra samning við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu um sex mánuði. Átakinu verður því haldið áfram en markmiðið er að hafa hvetjandi áhrif á einstaklinga til að skrá skammtímaútleigu sína.
Gisting í gegnum Airbnb dregst enn saman
Greiddum gistinóttum hefur fækkað hér á landi í sumar samanborið við árið á undan í kjölfar fækkun ferðamanna. Þá hefur gisting í gegnum á Airbnb og sambærilegar síður dregist meira saman en gisting á öðrum gististöðum í sumar.
Í tölum Hagstofunnar má sjá að gisting gegnum Airbnb og sambærilegar síður dróst saman 29 prósent í maí síðastliðnum, samanborið við sama mánuð í fyrra. Í júní dróst sú gisting saman um 10,5 prósent á milli ára og í júlí um 5,3 prósent.