Fjölgun ökutækja hér á landi hefur verið umfram fólksfjölgun í landinu síðustu ár. Alls hefur ökutækjum, bifreiðum og bifhjólum, fjölgað úr 132 þúsund árið 1995 í 309 þúsund árið 2018. Hlutur heimilanna af bílaflotanum er langstærstur en alls voru 658 bílar skráðir á hverja þúsund einstaklinga í janúar í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.
659 bílar á hverja þúsund einstaklinga
Ökutækjafloti Íslendinga hefur vaxið að meðaltali um 4 prósent milli ára allt frá árinu 1995. Í samantekt Hagstofunnar segir að smávægileg fækkun hafi orðið fyrstu tvö árin eftir hrunið árið 2008 en að vöxturinn hafi náði sér aftur á strik árið 2015.
Þrátt fyrir hraða fólksfjölgun á síðustu árum, aðallega vegna aðflutts vinnuafls, hefur ökutækjum fjölgað umfram fólksfjölgun hér á landi. Í ágúst í fyrra voru tæplega 230 þúsund ökutæki skráð á heimili landsins.

Heimilin eiga flesta rafbíla
Lesa meira,
Stærsti hluti ökutækja á heimilum er enn knúin með bensíni og fjöldi þeirra hefur lítið breyst frá árinu 2007. Á sama tíma hefur ökutækjum sem knúin eru með dísel eða öðru eldsneyti, hefur fjölgað.
Samkvæmt Hagstofunni var hlutfall rafknúinna ökutækja og tvinnbíla með hleðslugetu, vart marktækt af heildinni fyrr en árið 2018, en þá voru slík ökutæki 2,4 prósent af bílaflotanum í heild eða alls 7.445 þannig ökutæki, eða 2,4 prósent af bílaflotanum í heild. Þá er stærstur hluti rafknúinna ökutækja eða tvinnbíla skráður á heimili.
Eina leiðin til að höggva á umferðarhnútinn er að minnka bílaumferð
Fjallað hefur verið um mikinn umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu á morgnanna og síðdegis eftir að sumarfríum lauk og skólarnir byrjuðu á ný í fjölmiðlum undanfarna daga. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sagði í samtali við fréttastofu RÚV síðasta laugardag að umferðarvandinn verði aðeins leystur með einum þætti og það er að minnka bílaumferð.

Að mati Sigurborgar er nauðsynlegt að grípa til aðgerða sem samfélag fyrr en seinna. „Ég held að við sem samfélag þurfum að þora að taka þessar ákvarðanir, við glímum við mikinn umferðarvanda á höfuðborgarsvæðinu og við glímum við loftslagsvanda og hann er bara leystur með einum hætti og það er að minnka bílaumferð. Við höfum það í raun og veru í hendi okkar og getum gert það strax á næsta ári.“