Framlag til stjórnmálaflokka mun verða 728,2 milljónir króna á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2020 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í gærmorgun.
Framlögin lækka lítillega á milli ára en þau verða 744 milljónir í ár samkvæmt fjárlögum. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir því að framlögin lækki áfram næstu árin og verði 697 milljónir króna árið 2022.
Þegar kosið verður næst, árið 2021, munu flokkarnir átta sem náðu inn á þing í haustkosningunum 2017 verða búnir að fá alls úthlutað rúmlega 2,8 milljörðum króna úr ríkissjóði vegna áranna 2018-2021 til að standa straum af starfsemi sinni.
Framlögin verða þó áfram afar há miðað við það sem þau voru fyrir nokkrum árum. Tillaga sex flokka sem sæti eiga á Alþingi um að hækka framlag ríkisins til stjórnmálaflokka á árinu 2018 um 127 prósent var samþykkt í fjárlögum sem voru afgreidd áður en þingi var slitið í lok desember 2017. Framlög til stjórnmálaflokka áttu að vera 286 milljónir króna en urðu 648 milljónir króna á því ári. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Hámark framlaga líka hækkað
Fulltrúar allra flokka á Alþingi, þar á meðal sex formenn stjórnmálaflokka, lögðu sameiginlega fram frumvarp til að breyta lögum um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í lok síðasta árs. Það var svo afgreitt sem lög fyrir þinglok 2018.
Á meðal breytinga sem það stuðlaði að var að leyfa stjórnmálaflokkum að taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlag var 400 þúsund krónur en var breytt í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda sé hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Því hafa tækifæri stjórnmálaflokka til að taka við upphæðum frá einstaklingum og fyrirtækjum verið aukin samhliða því að upphæðin sem þeir fá úr ríkissjóði var rúmlega tvöfölduð.