Umhverfisráðuneytið ætlar að ráðast í samstarfsverkefni um matarsóun með Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga. Verkefnið felst í því að gera athugun á því hvar eftirlitsaðilar gera mögulega kröfur sem ekki eru nauðsynlegar með tilliti til matvælaöryggis sem gætu ýtt undir matarsóun. Þetta er hluti af aðgerðum sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur hrundið til að vinna gegn matarsóun á Íslandi.
Þriðjungur fer beint í ruslið
Vestræn lönd sóa gífurlegu magni matvæla á hverju ári sem hefðu hugsanlega geta brauðfætt milljónir manna. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna metur það sem svo að 1,3 milljón tonn af matvælum fari í ruslið á hverju ári eða um þriðjungur þess matar sem keyptur fer beint í ruslið.
Með því að draga úr matarsóun má nýta betur auðlindir, spara fé og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Á vefsíðunni matarsóun.is kemur fram að samkvæmt skýrslu Matvæla– og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að um 3.300.000 Gg af losun koldíoxíðígilda í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar.
Þetta mat tekur til losunar vegna sóunar við frumframleiðslu, við vinnslu og dreifingu matvæla og vegna sóunar hjá neytendum. Ef gert er ráð fyrir að losun á hvern íbúa á Íslandi sé sambærileg meðallosun á hvern íbúa Evrópu þá er losun frá matarsóun Íslendinga á ári hverju rúmlega 200 Gg koldíoxíðígilda. Það gerir um 5 prósent af árlegri heildarlosun Íslands árið 2013 og rúm 8 prósent ef frá er skilin losun frá starfsemi sem fellur undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
Því fæst töluverður samfélagslegur, umhverfislegur og fjárhagslegur ávinningur af því að minnka matarsóun. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur því ákveðið að hrinda af stað verkefnum sem ætlað er að vinna gegn matarsóun á Íslandi. Verkefnin eru liður í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum og verða í umsjón Umhverfisstofnunar.
Bjóða upp á veitingar úr útlitsgölluðum matvörum
Á meðal verkefna sem umhverfisráðherra mun standa fyrir er viðburðar um matarsóun þar sem verður boðið upp á veitingar úr illseljanlegum „útlitsgölluðum“ í þeim tilgangi að vekja athygli á hve miklum matvælum við sóum árlega. Á vef matarsóunar segir að um 20 til 40 prósent ferskra afurða komast aldrei í verslanir sökum strangra útlitskrafna verslana. Hvort sem það er vegna vitlausrar stærðar, litar eða lögunar. Þetta leiðir til offramleiðslu bænda til að fullvissa að þeir rækti nægilegt magn af „fallegum“ afurðum.
Auk þess mun ráðherra ráðast í samstarfsverkefni um matarsóun með Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitum sveitarfélaga líkt og greint var frá hér fyrir ofan. Gerð verður athugun á því hvar eftirlitsaðilar gera mögulega kröfur sem ekki eru nauðsynlegar með tilliti til matvælaöryggis sem gætu ýtt undir matarsóun. Í framhaldinu verður gripið til ráðstafana til að samræma eftirlitið í því skyni að tryggja að einungis verði gerðar þær kröfur sem nauðsynlegar eru vegna matvælaöryggis.
„Ég er afar ánægður með að vinna við þessi mál sé komin á skrið því matarsóun er meðal brýnustu viðfangsefna nútímans. Matvælaframleiðsla hefur áhrif á umhverfið, þó í mismiklum mæli sé – og alltof stór hluti matarins fer síðan beint í ruslið. Þegar hann er urðaður myndast síðan gróðurhúsalofttegundir. Matarsóun er því stórt loftslagsmál sem við ætlum að taka föstum tökum,“ segir Guðmundur Ingi.
Rannsaka matarsóun Íslendinga
Enn fremur stendur Umhverfisstofnun fyrir ítarlegri rannsókn á umfangi matarsóunar á Íslandi þar sem kannað er hversu mikill matur fer til spillis á íslenskum heimilum og hjá fyrirtækjum.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða síðan lagðar til grundvallar vinnu starfshóps sem stýrt verður af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og mun hafa það hlutverk að koma með frekari tillögur að aðgerðum sem ætlað er að draga úr matarsóun og þar með úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þá ætlar ráðherra einnig að veita aukið fjármagn í kynningu og fræðslu um matarsóun og rekstur vefsins matarsoun.is verður tryggður áfram.