Alls eru um 17,5 prósent fullorðinna einstaklinga 18 ára og eldri á leigumarkaði hér á landi. Aðeins um 3 prósent þeirra telja það líklegt að þeir kaupi fasteign á næstu sex mánuðum en það hlutfall hefur ekki mælst lægra í könnunum Zenter og Íbúðalánasjóðs á síðustu tveimur árum.
Nokkur kólnun á fasteignamarkaði
Í nýjustu tölum Þjóðskrár má sjá að vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 198 stig í ágúst 2019 og hækkaði um 1 prósent á milli mánaða. Þá hefur vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 3,7 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Til samanburðar hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 3,6 prósent á síðustu tólf mánuðum. Sé tekið tillit til verðbólgu, sem nú mælist 3,2 prósent, þá hefur fasteignaverð og leiguverð hækkað lítillega á síðastliðnu ári.
Óhætt er að segja að horfur á fasteignamarkaði hafi breyst nokkuð að undanförnu. Fasteignaverðshækkun á ári mældist 23,5 prósent vorið 2017, en síðan þá hefur veruleg kólnun átt sér stað á markaðnum, og mælist raunverðshækkun nú lítil sem engin. Spár gera ráð fyrir að fasteignaverð muni ekki hækka mikið á næstu misserum, en verði þó einhver, á bilinu 2 til 3 prósent, á næstu árum.
Tæplega fimmtungur íbúa á höfuðborgarsvæðinu á leigumarkaði
Í nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs er greint frá niðurstöðum könnunar Íbúðalánasjóðs og Zenter sem gerð var í júlí og ágúst síðastliðnum. Þar kemur fram að 92 prósent leigjenda telja öruggt eða að minnsta kosti líklegt að þeir muni ekki kaupa fasteign ef horft er hálft ár fram í tímann. Þetta hlutfall hefur ekki áður mælst svo hátt í könnun Íbúðalánsjóðs eða síðan kannanir hófust í september 2017.
Alls eru um 17,5 prósent fullorðinna einstaklinga 18 ára og eldri á leigumarkaði, samkvæmt mælingum Íbúðalánasjóðs. All eru um 19 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu á leigumarkaði samanborið við 16 prósent þeirra sem búa utan þess.
Í könnun Íbúðalánasjóðs kemur hins vegar fram að einstaklingar sem enn búa í foreldrahúsum séu líklegri til að vera í fasteignakaupahugleiðingum en leigjendur. Um 13 prósent þeirra telja það líklegt að þeir kaupi fasteign á næstu sex mánuðum.
Meirihluti þjóðarinnar telur það óhagstætt að leigja
Í viðhorfskönnun Íbúðalánasjóðs frá því í júní á þessu ári kemur fram að meirihluti þjóðarinnar telji að óhagstætt sé leigja um þessar mundir eða alls 92 prósent. Þá kemur enn fremur fram í sömu könnun að einungis 51 prósent leigjenda telji sig búa við húsnæðisöryggi. Algengasta ástæða þess að fólk telur sig ekki búa við húsnæðisöryggi er vegna þess að fólk hefur ekki efni á leigu eða verð of hátt.
Í könnunni kom jafnframt fram að um 29 prósent leigjenda töldu að núverandi húsnæði uppfyllti ekki þarfir samanborið við 8 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði.
Enn fremur er fjárhagsstaða heimilisins marktækt verri hjá leigjendum en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði. Yfir 20 prósent þeirra sem eru á leigumarkaði segjast safna skuldum eða nota sparifé til þess að ná endum saman samanborið við einungis 7 prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði.