Hækkun sjávarstöðu í heiminum er meiri en eldri spár IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, gerðu ráð fyrir. Sjávarborð heimshafanna fer hækkandi með hverju ári og mun verða örari með árunum komi ekki til umfangsmikilla aðgerða umfram það sem nú er gert. Hækkun sjávarborðs við Íslandsstrendur út 21. öldina gæti numið einum metra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IPCC.
Hlýnun á norðurskautssvæðinu tvöfalt hraðari
Sérstök skýrsla IPCC um áhrif loftslagsbreytinga á hafið og freðhvolfið sem unnin var að beiðni ríkisstjórna aðildarþjóða Sameinuðu þjóðanna var birt í dag. Í samantekt og þýðingu Veðurstofu Íslands á skýrslunni kemur fram að hlýnun á norðurskautssvæðinu hefur verið meira en tvöfalt hraðari en að meðaltali á jörðinni á síðustu tveimur áratugum.
Þessa miklu hlýnun má að hluta rekja til samdráttar hafíss og snjóþekju á sama tíma en í skýrslunni kemur fram að samanlögð árleg rýrnun hinna stóru jökulbreiða Grænlands og Suðurskautslandsins fer vaxandi. Massatap þeirra árin 2012 til 2016 var líklega meira en á árunum 2002 til 2011 og margfalt á við massatap áranna 1992 til 2001.
Þá hækkaði sjávarmál að jafnaði um 3,6 mm á ári á tímabilinu 2005 til 2015 og er sú hækkun 2,5 sinnum meiri en á árabilinu 1901 til 1990, er hækkunin mældist að jafnaði 1,4 mm á ári. Þetta er meira en IPCC mat árið 2013 í þeim sviðsmyndum þar sem mikið hlýnar en ástæða þess er að líkurnar á hraða rýrnunar íss á Suðurskautslandinu hefur hækkað.
Enn fremur er spáð í skýrslunni að sjávarstöðubreytingar munu halda áfram á næstu öldum og gætu orðið nokkrir sentimetrar á ári og skilað margra metra hækkun sjávarstöðu til langframa.
Í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kom út árið 2018 kemur fram að haldi forsendur um álíka mikla bráðnun jökulbreiða Grænlands og Suðurskautslandsins verður hækkun sjávar við Íslandsstrendur innan við helmingur hnattrænni meðalhækkun. Landsig og landris munu einnig hafa áhrif. Að teknu tilliti til óvissu getur hækkun hér við land út 21. öldina nálgast einn metra þar sem hún verður mest.
Hafið tekur upp 20 til 30 prósent af kolefnislosun
Í skýrslu IPCC kemur fram að vistkerfi í sjónum sé undir álagi vegna hækkandi sjávarstöðu en einnig vegna hlýnunar sjávar, aukinna sjávarhitabylgna, súrnunar sjávar og minnkandi sem og óhagstæðra áhrifa frá margvíslegri starfsemi mannsins á sjó og á landi.
Hafið hefur tekið upp 20 til 30 prósent af því kolefni sem losað hefur verið síðan á 9. áratugi síðustu aldar og við það hefur sjórinn súrnað. Á þessu tímabili hefur sýrustig yfirborðssjávar úthafanna lækkað um 0.17 til 0.27 pH gildi á hverjum áratug. Vegna þessa er súrnunin nú þegar meiri en vænta má vegna náttúrulegs breytileika, að því er fram kemur í skýrslunni.
Breytingarnar þegar byrjaðar að hafa áhrif á samfélög manna á norðurslóðum
Áhrif loftlagsbreytinga á vistkerfi norðurslóða gætir nú þegar samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar. Þar á meðal hafa breytingar af völdum hlýnunar orðið á útbreiðslu og stofnstærðum fiskistofna. Sú breyting hefur þegar haft áhrif á stjórnun veiða úr mikilvægum stofnum og á efnahagslegan ávinning veiðanna.
Auk þess hefur dregið hefur úr framleiðni í landbúnaði á sumum svæðum þar sem leysingarvatn hefur minnkað, sérstaklega þar sem annað álag af völdum loftslagsbreytinga eða félagslegra þátta hefur aukist. Í skýrslunni eru nefnd vestanverð Bandaríki Norður-Ameríku og háfjallasvæði í Asíu og svæði nærri miðbaug jarðar í Andesfjöllum sem dæmi um þetta.
Með aukinni hlýnun hafsvæða á þessari öld mun tilfærsla í útbreiðslu tegunda í átt til pólsvæða aukast til muna sem mun hafa áhrif á uppbyggingu vistkerfa og framleiðni lífríkisins. Jafnframt er gert ráð fyrir að breytingarnar dragi úr líffræðilegum fjölbreytileika þegar fram í sækir og að tegundir deyi út á líffræðilega einstökum svæðum.
Þá munu breytinga einnig gæta í rennsli vatnsfalla og á háfjallasvæðum muni fjallahlíðar verða óstöðugri vegna hörfunar jökla og þiðnunar sífrera. Jaðarlón framan við jökla munu stækka og slíkum lónum mun fjölga. Samkvæmt skýrslunni má í kjölfarið vænta fleiri náttúruhamfara, þar á meðal afkastaflóða, flóð í ám, aukin áhætta vegna sjávarflóða á lágvæðum og skriðuföll. Þá er talið sennilegt að snjóflóðum fækki og að þau muni ekki ná jafnlangt frá fjallshlíð og áður. Aftur á móti muni krapaflóðum og votum snjóflóðum fjölga, jafnvel að vetri til.
Í skýrslunni segir að þessar breytingar á nátturunni muni hafa áhrif á innviði samfélaga, matvælaöryggi, ferðamennsku, aðstæður til útivistar og skilyrði til búsetu á norðurskautssvæðinu. Tekið er hins vegar fram í skýrslunni að afleiðingarnar komi fram með mismunandi hætti fyrir mismunandi samfélög og þjóðfélagshópa.
Hækkandi sjávarmál djúpstæð áskorun
Niðurstöður þessarar skýrslu eru í samræmi við niðurstöður skýrslu IPCC um leiðir til að halda hlýnun undir 1.5 gráðum og skýrslu milliríkjanefndar um líffræðilegan fjölbreytileika og vistkerfi. Í skýrslunni er ítrekað að metnaðarfullar og samhæfðar aðgerðir séu nauðsynlegar til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra á hafið og freðhvolfið og á líf sem þeim er háð.
Í skýrslunni er tekið fram að ýmsir möguleikar séu tiltækir til þess að varðveita þau vistkerfi sem tengjast hafi og freðhvolfi og tryggja að virkni þeirra raskist ekki. Þar á meðal sé verndun, endurheimt og vistfræðileg stýring endurnýjanlegra náttúruauðlinda. Auk þess þurfi að draga úr mengun og álagi.
Þá þurfi aðgerðir stjórnvalda jafnframt að tryggja sjálfbæra þróun samfélaga og gera þau í stakk búin til að aðlagast afleiðingum loftslagsbreytinga. Þar á meðal þá djúpstæðu áskorun sem strandasamfélög standa frammi fyrir vegna hækkandi sjávarstöðu og aftakaflóða af hennar völdum.
Skýrsluhöfundar leggja áherslu á að stjórnvöld mennti fólk um áhrif manna á loftslagið og áhrifum loftslags á samfélög. Auk þess þurfi að setja fjármuni í eftirlit og í aðlögun samfélaga fyrir það sem koma skal.