UNICEF á Íslandi vonast til að fólk á samfélagsmiðlum svari vinsamlegu ákalli þeirra um að hugsa sig tvisvar um áður en það skrifar athugasemdir um Gretu Thunberg. Frá þessu er greint á Facebook-síðu þeirra í dag.
Þá kemur fram í stöðuuppfærslu UNICEF að síðustu daga hafi mikið verið fjallað um Gretu í fjölmiðlum, „sem nýtur réttar síns sem barn og sem manneskja til að láta rödd sína heyrast í loftslagsumræðunni.“
Því miður séu margir fullorðnir að skrifa niðrandi og hatursfullar athugasemdir um hana sem manneskju. Það sé ekki ásættanlegt. Sem loftslagsaðgerðarsinni, sem barn og sem manneskja eigi Greta, ásamt öðrum, rétt á að láta rödd sína heyrast.
Börn eiga rétt á að vera vernduð gegn hatri
„Við viljum biðja fólk um að hugsa sig tvisvar um áður en það skrifar athugasemdir á samfélagsmiðla. Hér er um að ræða manneskja sem á að vera sýnd virðing. Líka á internetinu,“ segir í færslunni.
Jafnframt kemur fram að UNICEF styðji börn sem berjast fyrir betri framtíð. Þau hafi rétt á að vera vernduð gegn hatri. UNICEF imprar á að það sé á allra ábyrgð.
„Við vonum að þú munir hjálpa Gretu, og öllum þeim mögnuðu og hugrökku börnum sem eru að tjá sig, að njóta réttar síns og hlusta,“ segir í færslunni.
Kæra fullorðna fólk á Facebook. Hér er vinalegt ákall til ykkar. Síðustu daga hefur mikið verið fjallað um Gretu...
Posted by UNICEF á Íslandi on Wednesday, September 25, 2019