Stjórn Arion banka samþykkti á fundi sínum í morgun nýtt skipulag bankans sem tekur gildi í dag. Starfsfólki bankans mun við þessar breytingar fækka um 12 prósent, eða um eitt hundrað. Þar af starfa um 80 prósent í höfuðstöðvunum bankans og um 20 prósent í útibúum. Vinnumálastofnun hefur verið greint frá þessu.
Í tilkynningu frá bankanum segir að skipulagsbreytingarnar séu liður í vegferð bankans að ná settum markmiðum um 50 prósent kostnaðarhlutfall og arðsemi eigin fjár umfram tíu prósent.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að dagurinn í dag verði erfiður þar sem bankinn kveðji hæft og gott starfsfólk. Ljóst sé hins vega að rekstarkostnaður bankans sé of hár og skipulag bankans taki ekki nægjanlega vel mið af núverandi markaðsaðstæðum og þörfum atvinnulífsins. „Umhverfi fjármálafyrirtækja hefur breyst mikið á undanförnum árum. Íþyngjandi breytingar á regluverki og sköttum á síðastliðnum áratug hafa leitt af sér mikinn viðbótarkostnað.
Sviðum fækkað og verkefni færast til
Sviðum bankans fækkar um tvö og ýmis verkefni færast til innan bankans með það að markmiði að einfalda starfsemina. Tekjusvið Arion banka verða þrjú: viðskiptabankasvið, fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið og markaðir. Stoðsvið verða einnig þrjú: fjármálasvið, upplýsingatæknisvið og áhættustýring.
Hefur legið í loftinu í meira en ár
Kjarninn greindi frá því á mánudagsmorgun að stórt hagræðingarskref væri í kortunum hjá Arion banka og að það yrði stigið í þessari viku. Í fréttaskýringu Kjarnans var rakið að það hefði legið fyrir opinberlega í meira en ár að það væru stefna bankans að draga verulega úr rekstrarkostnaði, og það yrði fyrst og síðast gert með því að fækka starfsfólki.
Í aðdraganda þess að Arion banki var skráður á markað um mitt síðasta ár var send út tilkynning þar sem kom fram að markmið bankans yrði að vera með arðsemi eigin fjár sem væri yfir tíu prósent, en hún hafði verið 3,6 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018.
Uppgjör bankans vegna síðasta árs olli miklum vonbrigðum. Arðsemin var einungis 3,7 prósent og hagnaður ársins 7,8 milljarðar króna. Það var 6,6 milljörðum krónum minna en árið áður.
Stór ástæða þessa var sú að þrír stórir viðskiptavinir bankans lentu í verulegum vandræðum, eða fóru beinlínis á hausinn með tilheyrandi útlánatöpum og afskriftum á kröfum.
Þar var um að ræða United Silicon, Primera Air og loks WOW air.
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 nam hagnaður bankans alls 3,1 milljarði króna en var fimm milljarðar króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár Arion banka hefur haldið áfram að vera slök. Hún var var 4,3 prósent á öðrum ársfjórðungi ársins 2019 og einungis 2,1 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins.
Bankastjórinn boðaði breytingar
Í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, fyrir rúmum tveimur vikum sagði Benedikt Gíslason: „Það er erfitt að horfa framan í hluthafa þegar arðsemin er undir áhættulausum vöxtum í landinu. Á hverjum degi höfum við þá ekki verið að búa til verðmæti fyrir hluthafa heldur að rýra þau. Þessu þurfum við að breyta og laga.“
Markmið hans væri ekki að Arion banki yrði stærsti bankinn bankinn á Íslandi heldur að hann skapaði arðsemi fyrir hluthafa.