Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í tölvupósti sem hann sendi starfsmönnum í morgun að bankinn hafi þurft að tilkynna um uppsagnir á um 100 starfsmönnum og aðrar skipulagsbreytingar fyrst í Kauphöll. Það hafi verið gert um leið og ákvörðun stjórnar Arion banka lá fyrir, en hún fundaði í morgun og samþykkti skipulagsbreytingarnar.
Í tölvupóstinum, sem Kjarninn er með afrit af, segir enn fremur að þeim sem verður gert að hætta störfum verði tilkynnt það eins fljótt og auðið er. Um 80 prósent þeirra sem missa vinnuna hafa starfað í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni. „Við teljum aðstæður í umhverfi bankans, eiginfjárkröfur, skattar og harðnandi samkeppni, sem og háan rekstrarkostnað, vera þess eðlis að ekki sé lengur hjá því komist að gera breytingar sem miða að því að einfalda starfsemina. Við þurfum að aðlaga okkur að aðstæðum hverju sinni,“ segir Benedikt í tölvupóstinum.
Þar kemur einnig fram að bankinn ætli sér að „gera það sem við getum til að gera þeim sem í dag hætta störfum starfslokin léttbærari.“ Komið hefur fram hjá Vinnumálastofnun að það starfsfólk sem missir vinnuna fái viðbótar mánuð greiddan í uppsagnarfrest við þann frest sem starfssamningar þess segja til um.
Gert til að auka arðsemi
Greint var frá því í morgun að stjórn Arion banka hefði tekið ákvörðun um að innleiða nýtt skipulag sem tæki samstundis gildi. Starfsfólki bankans mun við þessar breytingar fækka um 12 prósent, eða um eitt hundrað. Þar af starfa um 80 prósent í höfuðstöðvunum bankans og um 20 prósent í útibúum.
Kostnaður vegna starfsloka þeirra 100 starfsmanna Arion banka sem missa vinnuna í dag er áætlaður tæplega 900 milljónir króna. Hann verður gjaldfærður á þriðja ársfjórðungi ársins 2019. Eftir skatta nema áhrif aðgerðanna um 650 milljónum króna á afkomu þess ársfjórðungs.