Kostnaður vegna starfsloka þeirra 100 starfsmanna Arion banka sem missa vinnuna í dag er áætlaður tæplega 900 milljónir króna. Hann verður gjaldfærður á þriðja ársfjórðungi ársins 2019. Eftir skatta nema áhrif aðgerðanna um 650 milljónum króna á afkomu þess ársfjórðungs.
Áætlað er að breytingarnar, sem fela einnig í sér skipulagsbreytingar auk uppsagna á um 12 prósent starfsmanna Arion banka, muni að óbreyttu hafa jákvæð áhrif á afkomu bankans um 1,3 milljarða króna á ársgrundvelli, að teknu tilliti til skatta. Fyrsti ársfjórðungurinn þar sem áhrifanna gætir verður fjórði ársfjórðungur yfirstandandi árs. Þetta kemur fram í tilkynningu Arion banka til Kauphallar Íslands.
Greint var frá því í morgun að stjórn Arion banka hefði tekið ákvörðun um að innleiða nýtt skipulag sem tæki samstundis gildi. Starfsfólki bankans mun við þessar breytingar fækka um 12 prósent, eða um eitt hundrað. Þar af starfa um 80 prósent í höfuðstöðvunum bankans og um 20 prósent í útibúum.
Verð á hlutabréfum í Arion banka hafa hækkað um 2,26 prósent frá því að markaðurinn opnaði í morgun.
Breytingar á framkvæmdastjórn
Skipulagsbreytingarnar eru liður í vegferð bankans að ná settum markmiðum um 50 prósent kostnaðarhlutfall og arðsemi eigin fjár umfram tíu prósent.
Úr framkvæmdastjórn stíga Lýður Þór Þorgeirsson og Rúnar Magni Jónsson en báðir taka við nýjum stöðum innan fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs. Lýður Þór mun taka við starfi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar og Rúnar Magni við starfi forstöðumanns á sviði fjármögnunar fyrirtækja. Birna Hlín Káradóttir hefur verið ráðin yfirlögfræðingur Arion banka og mun stýra lögfræðiráðgjöf á skrifstofu bankastjóra.