Umtalsverð fækkun hefur orðið í gistingu erlendra ferðamanna í gegnum vefsíður á borð við Airbnb það sem af er ári. Alls hefur gistinóttum á Airbnb fækkað um 16 prósent á fyrstu sjö mánuðum ársins og veltan dregist saman um 7 prósent í krónum talið. Þá hefur framboð á íbúðum og húsum á Airbnb á höfuðborgarsvæðinu einnig dregist saman.
Gistinóttum fækkaði um 17 prósent í ágúst
Airbnb gisting á Íslandi tók af stað árið 2015 þegar erlendum ferðamönnum fjölgaði um 30 prósent á milli ára. Í nýrri ferðaþjónustugreiningu Landsbankans kemur fram að bankinn áætlar að árið 2015 hafi hlutdeild Airbnb af samanlögðum gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu verið 14 prósent. Markaðshlutdeild Airbnb óx hratt og náði hámarki á síðasta ári í um 38 prósentum.
Það sem af er þessu ári hefur markaðshlutdeild Airbnb hins vegar lækkað í fyrsta sinn síðan 2015 en greiningardeild Landsbankans áætlar að hlutdeild vefsíðunnar hafi verið um 36 prósent á höfuðborgarsvæðinu fyrstu 7 mánuði ársins.
Fjöldi gistinótta í gegnum Airbnb byrjaði að dragast saman í nóvember 2018 ef borið er saman við sama mánuð árið á undan. Þá hefur gistinóttum í gegnum Airbnb á fyrstu sjö mánuði ársins fækkað um 145 þúsund á höfuðborgarsvæðinu miðað við sama tímabil í fyrra, sem er um 15,6 prósent samdráttur.
Jafnframt dróst gisting í gegnum Airbnb saman um 17 prósent í ágúst miðað við árið á undan en til samanburðar dróst heildarfjöldi greiddra gistinátta í ágúst saman um 3 prósent á milli ára, samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands.
Rúmlega 300 færri íbúðir
Í ferðaþjónustu greiningu Landsbankans kemur jafnframt fram að framboð af Airbnb íbúðum og húsum hefur dregist saman á höfuðborgarsvæðinu á síðustu mánuðum, ef miðað er við sama tímabil í fyrra. Í júlí dróst framboð íbúða saman um 8,4 prósent miðað við sama mánuð í fyrra en það er mesti samdráttur í framboði frá því að Airbnb ævintýrið hófst hér á landi, samkvæmt Landsbankanum.
Í júlí voru skráðar rúmlega 2.800 Airbnb íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og 628 hús. Samtals hefur framboð á íbúðum og húsum fækkað um 317 frá júlí í fyrra
Þá drógust leigutekjur af gistirýmum á höfuðborgarsvæðin saman um 21 prósent mælt í Bandaríkjadölum, úr tæpum 68 milljónum í 53 milljónir Bandaríkjadala. Vegna veikingar krónunnar milli ára var samdrátturinn minni í krónum talið, eða 7 prósent, sem nemur ríflega 500 milljónum króna.
Airbnb í sókn utan höfuðborgarsvæðisins
Framboð á Airbnb íbúðum hefur þó ekki dregist saman í öllum landshlutum. Enn er töluverð aukning á svæðum sem liggja hvað lengst frá höfuðborgarsvæðinu; á Austurlandi, Norðurlandi eystra og Vestfjörðum. Í júlí nam aukningin á þessum svæðum frá 11 til 20 prósent samkvæmt greiningu Landsbankans. Jafnframt varð nokkur aukning á Vesturlandi, eða um 14 prósent.
Gistinætur hafa verið um 40 prósent samanlegra gistinótta hótela og Airbnb utan höfuðborgarsvæðisins það sem af er þessu ári. Það er aukning um um 1 prósentustig miðað við allt árið í fyrra.