Gengið á GAMMA: Anglia, fimm milljarða króna sjóði sem stofnaður var sumarið 2017 til að fjárfesta í ýmsum verkefnum í Bretlandi, var í gær fært niður úr 105 í 55, samkvæmt heimildum Kjarnans. Það þýðir að sá sem átti í sjóðnum fyrir t.d. 105 milljónir króna átti 55 milljóna króna eign í honum eftir niðurfærsluna.
Einn þeirra sem átti í sjóðnum var Lífsverk lífeyrissjóður. Samkvæmt upplýsingum frá honum hefur eign sjóðsins í Anglia-sjóðnum verið færð niður um 43 milljónir króna frá upphaflegum kaupum sem áttu sér stað í júlí 2017.
GAMMA: Anglia, var stofnaður sumarið 2017. Um var að ræða fimm milljarða króna fasteignasjóð í London sem átti að fjárfesta í hinum ýmsu verkefnum. Sjóðurinn var stofnaður til að gera íslenskum aðilum kleift að fjárfesta erlendis eftir að gjaldeyrishöftum var lyft snemma árs 2017. Þeir sem settu fé í í sjóðinn voru íslenskir einstaklingar, tryggingafélag og lífeyrissjóðir.
Lífeyrissjóður færir niður um 64 milljónir
GAMMA: Anglia var annar tveggja sjóða í stýringu hjá GAMMA sem var færður verulega niður í gær. Hinn heitir GAMMA: Novus. Kjarninn greindi frá því síðdegis í gær að eigið fé Novus-sjóðsins hefði verið lækkað úr 4,4 milljörðum króna um áramót í 42 milljónir króna eftir endurmat á eignum. GAMMA er í dag í eigu Kviku banka, en bankinn keypti félagið fyrr á þessu ári. Hann mun þó ekki bera neitt tap vegna sjóðanna heldur hlutdeildarskírteinishafar sem keyptu í þeim.
Verðmat eignar lífeyrissjóðs Vestmannaeyja var 155,3 milljónir króna í lok ágúst síðastliðins. Verðmatið í gær, mánuði síðar, var 1.694 þúsund krónur. Það hafði því lækkað um vel yfir 150 milljónir króna á nokkrum vikum.
Raunveruleg niðurfærsla á eign sjóðsins er því, miðað við núverandi stöðu, 64,3 milljónir króna.
Tvö tryggingafélög, TM og Sjóvá, hafa þegar greint frá því að þau hafi fært niður virði fjárfestingaeigna sinna vegna eignar sinnar í Novus. TM sendi frá sér afkomuviðvörun í gærmorgun þar sem fram kom að bókfært tap félagsins vegna Novus væri um 300 milljónir króna.
Sjóvá færði niður virði fjárfestingaeigna sinna um 155 milljónir króna vegna eignar í sama sjóði. Bæði félög eru meðal annars í eigu íslenskra lífeyrissjóða, sem taka þannig á sig óbeint tap vegna niðurfærslunnar.