Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna, LSR og Gildi, hafa ekki fjárfest í sjóðum GAMMA.
Á vefsíðu Gildis kemur fram að „í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar síðustu daga um málefni Gamma Capital Management og fyrirspurna sem Gildi hafa borist þykir sjóðnum rétt að upplýsa að Gildi hefur ekki fjárfest í sjóðum Gamma.“
Í svari við fyrirspurn Kjarnans til LSR og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna segir að þeir hafi heldur ekki fjárfest í fyrrnefndum sjóðum.
Tryggingafélagið VÍS sendi frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi þar sem gert var grein fyrir því að afkoma félagsins til ársloka verði óhagstæðari en spá hafði gert ráð fyrir. Samkvæmt drögum að árshlutauppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung verður afkoman neikvæð um 370 til 420 milljóna króna en áður hafði verið gert ráð fyrir því að hagnaður upp á 138 milljónir króna yrði af starfsemi VÍS á ársfjórðungnum.
Í tilkynningunni segir að margþættar ástæður séu fyrir þess en að mest vigti verri afkoma af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins. Einnig skiptir máli að VÍS átti hlutdeildarskírteini í sjóðnum GAMMA: Novus, sem var færður niður í fyrradag um milljarða króna. Niðurfærsla VÍS vegna þessa nemur 155 milljónum króna.
Þar með hafa öll þrjú skráðu tryggingafélög landsins fært niður eignir vegna GAMMA: Novus. Bókfært tap TM vegna fjárfestinga í sjóðnum nemur um 300 milljónum króna og Sjóvá bókfærði tap upp á 155 milljónir króna.