Máli héraðssaksóknara á hendur fjórum liðsmönnum hljómsveitarinnar Sigur Rósar var vísað frá dómi í morgun. Fréttablaðið greinir fyrst frá. Frávísunarúrskurðurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Héraðssaksóknari ákvað strax að áfrýja málinu, samkvæmt Fréttablaðinu.
Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður núverandi og fyrrverandi liðsmanna Sigur Rósar og endurskoðanda hljómsveitarinnar, lagði fram frávísunarkröfu, við fyrirtöku málsins þann 20. maí síðastliðinn.
Jón Þór Birgisson, söngvari Sigur Rósar, og endurskoðandi hans, Gunnar Þór Ásgeirsson, voru ákærðir fyrir að hafa komið félagi í eigu Jóns Þórs undan greiðslu tekjuskatts af rúmlega 700 milljónum króna. Ákæran var lögð fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í byrjun apríl síðastliðins þegar Sigur Rósar-málið var þingfest. Jón Þór og endurskoðandi hans neituðu báðir sök.
Málið snérist um samlagsfélagið Frakk sem Jón Þór á. Í ákærunni er Jóni Þór og endurskoðandanum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á skattframtölum vegna gjaldáranna 2011 til 2015. Þetta var önnur ákæran á hendur Jóni Þór og endurskoðanda hans en söngvarinn er einnig ákærður fyrir brot sem tengjast félögum í eigu liðsmanna Sigur Rósar. Þar nema meint brot hans 43 milljónum króna og var söngvarinn því ákærður fyrir 190 milljóna skattalagabrot.
Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson voru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014. Kjartan var sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.
Þremur liðsmönnum sveitarinnar, Georg Holm, Jón Þór og Orri Páll Dýrason, var gefið að sök að hafa komist undan greiðslu tekjuskatts og fjármagnsskatts. Kjartan, sem hætti í Sigur Rós fyrir rúmum sex árum, var ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt. Saksóknari sagði að þeir hefðu sleppt því að telja fram rekstrartekjur félagsins á þessum árum sem námu rúmum 700 milljónum og þannig komið félaginu undan greiðslu tekjuskatts upp á 146 milljónir.