Forsætisnefnd hefur lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um þingsköp Alþingis. Frumvarpið snýr að því að veita almenning aðgang að upplýsingum um stjórnsýslu Alþingis. Þar á meðal er gert ráð fyrir að öllum verði unnt að skoða upplýsingar um greidda reikninga úr bókhaldi skrifstofu Alþingis. Jafnframt verði hægt að nálgast gögn um störf nefnda eða starfshópa sem forseti eða forsætisnefnd hefur komið á fót til þess að kanna einstök mál eða til að vinna tillögur um málefni.
Gildissvið upplýsingalaga var víkkað í ár
Forsætisnefnd undir forystu Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, vinnur nú að breytingum á þingsköpum vegna nýsamþykktra breytinga á upplýsingalögum, þar sem gildissvið laganna var útvíkkað og meðal annars látið ná til stjórnsýslu Alþingis.
Með stjórnsýslu Alþingis er átt við þá starfsemi sem fram fer á vegum Alþingis, þar á meðal starfsemi sem forseta Alþingis eða forsætisnefnd er falin. Undanskildar eru hins vegar upplýsingar og skjöl er varða þingstörf Alþingis.
Hægt að nálgast reikninga frá skrifstofu Alþingis
Nú þegar er almenning veittur aðgangur að upplýsingum um starfsemi Alþingis þegar kemur að meðferð þingmála, þar á meðal um löggjafarstarf þingsins, meðferð fjárstjórnarvalds og eftirlitsstörf þingsins. Einnig hafa verið settar reglur um opna fundi fastanefnda þingsins og upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna hafa verið gerðar aðgengilegar á vef þingsins frá alþingiskosningum árið 2007.
Með þessu frumvarpi forsætisnefndar er lagt til að meginreglan verði sú að aðgangur skuli vera veittur að gögnum um þá starfsemi Alþingis sem lýtur að stjórnsýslu þess og er í grundvallaratriðum ekki frábrugðin því sem gildir um starfsemi opinberra aðila sem heyra undir framkvæmdarvaldið.
Þar á meðal eru fundargerðir forsætisnefndar og annara nefnda eða starfshópa sem hafa starfsaðstöðu hjá skrifstofu Alþingis. Takmarkanir kunna þó að vera á aðgangi að fundargerðum forsætisnefndar, einkum ef efni fundargerða varðar störf Alþingis eða um málefni starfsmanna.
Jafnframt er lagt til að heimildin verði látin ná til gagna um störf nefnda eða starfshópa sem forseti eða forsætisnefnd hefur komið á fót til þess að kanna einstök mál eða til að vinna tillögur um málefni. Einnig er lagt til að gögn um úthlutun heiðurslauna verði aðgengileg.
Ef frumvarpið nær fram að ganga verður jafnframt hægt skoða upplýsingar um greidda reikninga úr bókhaldi skrifstofu Alþingis með líkum hætti og nú er um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins.
Nær ekki til starfa Alþingis sem fulltrúasamkomu
Upplýsingaskyldan nær aftur á móti ekki til starfa Alþingis sem fulltrúasamkomu þjóðkjörinna fulltrúa, það er hvorki til starfa þingmanna, þingflokka né starfsmanna þeirra. Enn fremur verða ekki veittar upplýsingar um hvað fer á milli þessara aðila og skrifstofu þingsins.
Réttur til aðgangs að gögnum um stjórnsýslu Alþingis tekur því meðal annars ekki til gagna sem farið hafa á milli Alþingis og stjórnvalds við undirbúning fjárlagatillagna fyrir Alþingi. Né gagna um meðferð forsætisnefndar Alþingis á siðareglumálum, en um aðgang að þeim fer samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar hverju sinni.
Lesa má frumvarpið í heild sinni hér.