„Stjórnmálamenn réðu þessu eins og oftast með ákvörðunum sínum um fjárveitingar. Það hafði enginn áhuga á að leggja manni lið í þessu þegar eftir því var leitað. Menn sem læra allt sem þeir vita um löggæslu af því að horfa á ameríska lögguþætti, hafa fullan skilning ef það þarf að kaupa riffla eða annan búnað fyrir sérsveit, en engan þegar skilningurinn kallar á vitsmunalega þekkingu og þeir þurfa að lesa sér til. Þetta átti við um rannsóknir efnahagsbrota yfir það heila. Svo allt í einu vöknuðu menn við hrunið og fóru að skilja að kannski gætu refsilagabrot í atvinnulífinu haft afleiðingar jafn vel fyrir þá sjálfa. En að einhver hafi haft áhuga á að hlusta á okkur sem höfðum á þessu þekkingu, það var ekki. Við gerðum það sem við gátum með það sem við höfðum.“
Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, í ummælum við deilingu á frétt Kjarnans um að Ísland hafi verið verið sett á gráan lista hjá Financial Action Task Force (FATF) vegna ónógra varna gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Tilkynnt var um það síðastliðinn föstudag.
Hann segir í samtali við Kjarnann að „mennirnir“ sem hann minntist á í ummælunum væru í raun allt kerfið. Stjórnmálamenn, ráðuneyti dómsmála og embætti ríkislögreglustjóra.
Ísland reyndi að bregðast við en það var of seint
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þá stöðu sem hefur verið uppi í vörnum Íslands gagnvart peningaþvætti á undanförnum árum. FATF skilaði skýrslu um varnir Íslands gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka í apríl í fyrra. Niðurstaða hennar var að Ísland fékk falleinkunn. Lagaumhverfi, virkni eftirlits og framfylgd var í lamasessi að mati FATF.
Íslandi var gefið fram á mitt ár 2019 til að bregðast við. Ef úrbætur yrðu ekki nægjanlegar, og Ísland færi á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki myndi það, að mati innlendra hagsmunaaðila, leiða til þess að orðstír og trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi biði verulegan hnekki. Líkurnar á aukinni erlendri fjárfestingu myndu dragast saman og áhrif á lánshæfismat íslenskra fyrirtækja, meðal annars fjármálastofnana, yrðu óumflýjanleg.
Kjarninn greindi frá því í lok ágúst að Ísland hefði skilað FATF eftirfylgnisskýrslu vegna aðgerða sem Ísland hefur gripið til til að bæta varnir sínar gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, snemma í sumar.
Í eftirfylgnisskýrslu sem birt var snemma í september kom fram að Ísland hefði uppfyllt 28 af 40 tilmælum sem FATF gerði kröfu um að löggjöf ríkja þurfi að uppfylla. Ísland uppfyllir ellefu tilmæli að hluta en ein tilmæli, sem lúta að starfsemi almannaheillafélaga, töldust enn óuppfyllt. Ráðist var í að keyra í gegn lög um þau fyrr í þessum mánuði, og virtist þingheimur þá vera að vakna til vitundar um alvarleika málsins. Það dugði þó ekki til þess að koma í veg fyrir að Ísland endaði á listanum.
Ísland ætti bara að senda borðfána á fund FATF
Sá sem deildi fréttinni sem Helgi Magnús tjáði sig um var lögfræðingurinn Eyjólfur Ármannsson, sem starfaði á árum áður sem aðstoðarsaksóknari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og þar áður hjá Fjármálaeftirlitinu á árunum 2006 til 2011.
Ekki var nokkur skilningur á mikilvægi þessa málaflokks á æðstu stöðum í stjórnkerfinu og áhugi og stuðningur við hann eftir því. Viðhorfið var að hér væri málaflokkur úr öðrum heimi sem kæmi Íslandi í raun lítið við. Þetta væri eitthvað útlenskt, viðhorf sem er áhugavert menningarlegt fyrirbæri innan íslenskrar stjórnsýslu. Við yrðum samt að vera með sjóv og taka þátt. Fyrir Hrun sýndu bankarnir áhuga. Aðalatriðið var að Ísland reddaði sér með lagabreytingum. Svipað viðhorf virðist vera í gangi í dag, sbr. greinin.“
Eyjólfur segir í stöðuuppfærslunni að hann hafi einu sinni sagt við samstarfsmann sinn í ráðuneyti, þegar hann starfaði þar, sem hafði málaflokkinn á sinni könnu að Ísland ætti bara senda íslenskan borðfána á fund FATF. „Þátttakan á fundunum eftir FATF matið 2006 var ekki mikið meira en það, miðaðist við að hafa einhvern í sæti Íslands. Þessi niðurstaða hefur ekkert með fámenni að gera, heldur skilningsleysi, heimóttarskap og hreinan aulaskap. Klárt mál hvar ábyrgðin liggur, en samkvæmt venju skiptir það auðvitað ekki nokkru máli.“
Búið að styrkja skrifstofuna
Efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra var sameinuð embætti sérstaks saksóknara haustið 2011, en peningaþvættisskrifstofan var skilin eftir hjá embætti ríkislögreglustjóra. Hún færðist svo til sérstaks saksóknara, sem nú heitir héraðssaksóknari, sumarið 2015. Þá starfaði einn maður á skrifstofunni.
Skrifstofan heitir nú skrifstofa fjármálagreininga lögreglu og hefur verið fjölgað til muna á henni undanfarin misseri. Fjármunir hafa verið settir í að kaupa upplýsingakerfi til að taka á móti og halda utan um tilkynningar um peningaþvætti og eftirlit með starfsemi innan bankanna sjálfra hefur verið eflt. Innleiðing þess kerfis er þó ekki að fullu tilbúin.
Gagnrýndi andvaraleysi harkalega fyrir rúmum áratug
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Helgi Magnús hefur sett fram gagnrýni á þessi mál. Þann 20. júní 2007 var birt viðtal við Helga Magnús í fríblaðinu Blaðinu. Deildin hans stýrði þá öllum rannsóknum á efnahagsbrotum sem falið gátu í sér saknæmt athæfi, þar með talið rannsóknum á peningaþvætti.
Í viðtalinu sagði Helgi Magnús: „Í alþjóðavæðingu viðskiptalífsins og útrás fyrirtækja felst að þau brot sem við erum að rannsaka eru að teygja sig mikið víðar um heiminn. Það er fjöldi ríkja sem lifir á því að hjálpa mönnum að fela peningana sína og við þurfum að fara þangað eftir upplýsingum[...]Annaðhvort rannsökum við brotin og höfum þau úrræði sem til þarf eða afbrotamenn geta ákveðið að fara með fjársvikin sín yfir nokkur landamæri til að koma í veg fyrir að rannsóknin nái tilgangi sínum. Mér þykir það ekki ásættanlegt."
Ári síðar, 21. júní 2008, var birt annað viðtal við Helga Magnús í sama fjölmiðli, sem hafði þá skipt um nafn og hét 24 stundir.
Þar sagði hann: „Efnahagsbrot hafa mörg hver alþjóðlegt eðli og teygja sig yfir fjölda landa. Við þurfum sérhæft fólk sem hefur menntað sig í viðskiptafræðum og góða lögreglumenn. En það kostar. Frá síðasta sumri höfum við tapað fjórum fullmenntuðum viðskiptafræðingum, eða öllum slíkum sem við höfðum, til einkageirans.“
Tæpum fjórum mánuðum síðar hrundi íslenskt bankakerfi á innan við viku.